„Ég reyni að láta sjúkdóminn ekki skilgreina mig, hvað ég get gert og get ekki gert,“ segir hún beðin um að segja aðeins frá sjálfri sér. „Ég sjálf er Svanhildur Sigurðardóttir, 47 ára í nóvember, þriggja barna móðir fyrst og fremst, hef verið gift manninum mínum í 18 ár. Í æsku þá ólst ég upp á Seltjarnarnesi til átta ára aldurs, við fluttum til Danmerkur þar sem foreldrar mínir fóru í nám, fluttum eftir tvö ár í Vesturbæinn og eins og með önnur hverfi þá límist maður þar og ég er enn þar. Eftir að ég kynntist manninum mínum þá fluttum við til Kaupmannahafnar og hann var að vinna þar, þá vorum við með þriggja ára dóttur og þriggja mánaða son. Sama ár kláraði ég stjórnmálafræðina. Þaðan fluttum við til New York, ætluðum að vera í þrjú ár, en fluttum heim í snatri þegar hrunið kom.“
Svanhildur segir hjónin hafa verið hæstánægð með ákvörðunina að flytja heim, þau áttu íbúð í Vesturbænum og stórfjölskyldan var að mestu á Íslandi. Bæði fóru að vinna hjá Auði Capital og þriðja barnið fæddist árið 2011. Fjölskyldan var dugleg að sinna áhugamálum, ýmist saman, hjónin saman og í sitt hvoru lagi, skíði, hjólreiðar, göngur og útilegur. Svanhildur færði sig yfir í Ölgerðina sem samskiptastjóri og var yfir samfélagsábyrgð. „Þannig að ég hafði góða reynslu í þeim málum þegar Ölgerðin gaf út fyrstu samfélagsskýrsluna í mars árið 2014. Síðan fór ég yfir á Hvíta húsið auglýsingastofu og síðast var ég markaðsstjóri hjá lífeyrissjóðnum Lífsverk. Allt var þetta í takt við áhugasviðspróf sem ég tók þegar ég kláraði stúdentinn, minn áhugi liggur í samskipta- og markaðsmálum. Það fer oft þannig að þó maður sé með áhuga á einu, þá liggur hæfileiki manns jafnvel dýpra annars staðar. Í stjórnmálafræðinni tók ég tvo kúrsa í uppeldis- og menntunarfræði og átti þá von á mínu öðru barni: þroski barna og unglinga, og áhættuhegðun unglinga. Og ég segi stundum að þetta sé það eina sem ég lærði í háskólanum, það sem situr mest eftir.“
Sagði krabbameinslækninum að hann yrði að hafa von
Aðspurð um hvernig hún varð fyrst vör við breytingar á heilsunni segir Svanhildur að ferlið hafi verið ansi flókið. Hún hafi verið mikið í fjallahjólreiðum og fjallgöngum og fór að finna fyrir miklum dagamun á þolinu, auk þess sem púlsinn var í algjöru rugli.
„Ég var búin að vera með verki í hægri mjöðm í meira en ár og hjá sjúkraþjálfara. Það var búið að athuga að þetta var ekki brjósklos. Ég fór til læknis og bað hann um myndatöku á hægri mjöðm, sem kom ekkert út úr. Mánuði seinna sendi ég beiðni í gegnum Heilsuveru, þá var ég komin með furðulega verki sem leiddu undir rif og upp i hægri öxl. Í myndatöku sáust einhverjir blettir sem röntgenlæknar greindu sem æðaflækjur eða blóðblöðrur, það er þeir litu ekki út fyrir að vera hættulegir. Mér var sagt að koma í aðra myndatöku eftir þrjá mánuði. Og ég trúði bara í hjarta mér að þetta væri eitthvað saklaust,“ segir Svanhildur.
Í janúar var heilsan orðin verri og Svanhildur komin með massíva verki, auk þess sem hún var farin að léttast mikið. Í myndatökunni í mars kom í ljós að blettirnir höfðu stækkað og þeim hafði fjölgað. „Þá tók við allsherjar krabbameinsleit, sem bara tók yfir líf mitt. Ég var nýkomin aftur til vinnu eftir heimavinnu í COVID, en þurfti að vera í læknisrannsóknum annan hvern dag og færði mig bara aftur í heimavinnu meðan þetta stóð yfir. Ég sagði við yfirmann minn að ég væri bara óvinnufær, ég væri stöðugt í rannsóknum og ekki með fókusinn á vinnunni. Ég var með 100% stuðning hjá vinnuveitandanum. Ég fór í húðskoðun á húðlækningadeild á Borgarspítala og þær skönnuðu alla húðina, hársvörðinn, milli tánna, undir neglur og allt. Þær voru svo vandvirkar. Ég fór í brjóstaskanna, heilaskanna og lungnaskanna þar sem fundust tíu lítil mein.“
Krabbameinsleitin hélt áfram og eftir tvær vikur spurði heimilislæknir Svanhildar hvort þau hjónin vildu ekki koma og fara yfir stöðuna. „Læknirinn fer að spyrja mig hvernig mér líði og ég segist vera á fljótandi fæði af því ég sé enn með krampa frá þind upp í öxl. Hann segist byrja á að reyna að verkjastilla það, og ég fékk taugaverkjalyf sem var það eina sem virkaði. Síðan spurði hann: „Er einhvers staðar eitthvað í líkamanum sem þú hugsar að sé algjörlega saklaust en gæti verið eitthvað.“ Og ég rifjaði það upp að á gönguskíðanámskeiði í janúar tók ég of mikið á og fékk hnút á hægra læri rétt fyrir neðan nára. Kírópraktorinn minn hélt að þetta væri útbungun á vöðva af því ég tók of mikið á og best væri bara að rúlla þetta. Læknirinn skoðaði þetta og sendi mig í fínnálaástungu sama dag. Þar sáu læknarnir strax að þeir vildu skoða þetta betur og ég fór í grófnálaástungu,“ segir Svanhildur, sem segist þarna hafa verið komin undir bæklunarskurðlæknateymið þar sem mjúknálaástungan benti til að um væri að ræða krabbamein í stoðkerfi.
„Mitt krabbamein er þannig að það skiptir máli að skera sem fyrst. Mitt sýni er einnig algjör útlagi í tölfræði, ég held það hafi liðið 3-4 vikur sem ég heyrði ekki í neinum, sýnið mitt var sent á ýmsa staði og að lokum til Boston í Bandaríkjunum þar sem staðfest var hvaða tegund af krabbameini væri um að ræða. Ég sagði strax við lækninn minn að mín tilfinning væri að krabbameinið væri ekki alvarlegt og ég hef reynt að halda í þá tilfinningu, sem hefur verið rosalega erfitt en líka gefið mér margfalt meira,“ segir Svanhildur.
„Það var svolítið sérstakt að þegar ég fékk krabbameinsgreininguna þá svona spólaðist lífið fyrir mér. Hvað hef ég gert, hvað hef ég gert sem var að gagni? Það voru nokkrar ákvarðanir sem ég tók á meðan ég var í greiningarferlinu og ég hitti nokkra aðila sem höfðu veikst af alvarlegu krabbameini og sigrast á því. Þeir gáfu mér alveg rétt hugarfar (e. mindset) í gegnum þetta ferli allt. Ég fór fljótlega að skipuleggja hvað ég ætlaði að verja tíma mínum í, hvernig ætla ég að gera þetta, hvernig verður þessi kafli í mínu lífi, þó kaflinn sé orðinn tvö og hálft ár. Krabbameinslæknirinn minn er ótrúlega fróð og góður læknir, en mér fannst ekki geisla af henni vonin sem ég var að vonast eftir. Ég sagði við hana að ég þyrfti á því að halda að hún hefði von, af hverju væri ég annars að drattast í gegnum þessar lyfjameðferðir.“