Ráðstefna ICPTO Amsterdam 2023

Höfundur

Guðrún Erla Þorvarðardóttir, Inga Rán Gunnarsdóttir og Stefán Diego

Ljósmyndari

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir

Ekki er langt síðan farið var að ráðleggja einstaklingum í krabbameinsmeðferðum að hreyfa sig á meðan krabbameinsmeðferð stendur. Áður fyrr átti að hvíla sig og safna kröftum til að geta tekist á við krabbameinsmeðferðina. Fyrir um það bil 15 árum síðan fóru þær ráðleggingar að breytast og byggir öflugt starf líkamlegrar endurhæfingar í Ljósinu á fjölbreyttum rannsóknum sem gerðar hafa verið á áhrifum hreyfingar á lífsgæði þeirra sem greinast með krabbamein. Nýverið hélt hluti þjálfarahóps Ljóssins á ráðstefnu ICPTO í Amsterdam og fjalla þau í þessari grein um það helsta sem upp úr stendur eftir ferðina.

Stefán, Inga Rán og Guðrún héldu til Amsterdam í leit að frekari þekkingu á sviði líkamlegrar endurhæfingar krabbameinsgreindra

Fyrstu ráðleggingar um hreyfingu voru þær að einstaklingar í krabbameinsmeðferð áttu að hreyfa sig um það bil 45 % af hámarksákefð sem er mjög lítið. Eftir ráðstefnu ICPTO (International conference on pysiotherapy in onceology) árið 2018 voru gefnar út nýjar ráðleggingar um hreyfingu og þjálfun fyrir einstaklinga með krabbamein. Í dag eru ráðleggingarnar komnar á borð við almennar lýðheilsuráðleggingar.

Dagana 14 – 15 september 2023 fóru Guðrún Erla, Inga Rán og Stefán Diego sem eru hluti af þjálfurum Ljóssins á ráðstefnu ICPTO sem haldin var í Amsterdam. Yfirskrift ráðstefnunnar í ár var Advances in providing the best care. Fyrirlesarar voru ýmist prófessorar eða fræðimenn innan fagsins. Áhugavert var að sjá mismunandi áherslur á endurhæfingu á milli landa. Upplifunin var að við í Ljósinu á litla Íslandi erum nokkuð framarlega í faginu. Í Bandaríkjunum og Kanada er aðgengi allra að endurhæfingu takmörkuð þar sem kostnaður er oft mjög mikill sem einstaklingar þurfa sjálfir að standa straum af. Því er áherslan í rannsóknum hjá þeim oft sú að finna út hverjum nýtist endurhæfingin best. Á meðan Evrópa vinnur meira að því að finna leiðir til að sem flestir geti nýtt sér endurhæfingu m.a. með því að hanna snjallforrit fyrir snjalltæki svo aðgengi verði einfaldara. Allir sem tóku þátt í ráðstefnunni eru sammála um að endurhæfing fyrir, á meðan/og eftir krabbameinsmeðferð skiptir gríðarlega miklu máli á svo marga vegu. Mikið úrval var af spennandi erindum á ráðstefnunni svo oft þurfti að velja og hafna. Við ætlum að fjalla aðeins um það sem okkur finnst tengjast starfinu hér í Ljósinu.

Samkvæmt nýjustu krabbameinsrannsóknum munu krabbameinstilfellum í hinum vestræna heimi fjölga næstu árin. En á sama tíma er 5 ára lifun einstaklinga með krabbamein að aukast. Sem gerir endurhæfingarþörfina meiri.

Þjálfarar á góðri stundu milli fræðslu erinda

Forhæfing

Prerehabilitation – Forhæfing er nýtt hugtak í fræðunum sem fræðimenn hafa verið að leggja aukna áherslu á undanfarið. Það að byggja sig upp fyrir meðferðir og aðgerðir hefur jákvæð áhrif á hvernig einstaklingum tekst að takast á við meðferðir og flýtir endurheimt eftir meðferðirnar. T.d. þjálfun fyrir aðgerð hjálpar líkamanum að ráða við aðgerðina og flýtir fyrir endurheimt að aðgerð lokinni. Líkaminn á þá einnig auðveldara með að vinna gegn aukaverkunum lyfjameðferðarinnar. Vandamálið við forhæfingu er að eftir greiningu byrjar fólk oftast nokkuð fljótt í meðferð en þó munar um hverja viku í þjálfun fyrir krabbameinsmeðferðir. Almennt séð er mikilvægt að fylgja almennum lýðheilsuráðleggingum um hreyfingu og næringu þannig að líkaminn sé alltaf eins vel undirbúin eins og hægt er til að takast á við óvænt verkefni eins og krabbameinsgreiningu. Því má segja að besta forhæfingin sé að vera almennt virkur í lífinu og í eins góðu formi, líkamlega og andlega, og mögulegt er hverju sinni.

Síþreyta

Síþreyta er ein algengasta aukaverkun samhliða og eftir krabbameinsmeðferð. Nánast allir finna fyrir aukinni þreytu og orkuleysi þó í mismiklu mæli. Hreyfing, þjálfun og slökun er helsta vopnið okkar til að vinna gegn þessari erfiðu aukaverkun. Rannsóknir hafa sýnt fram á að hæfileg þjálfun af styrktar- og þolþjálfun í bland (Þar sem áreynslan er þannig að við mæðumst í þolæfingum og finnum fyrir vöðvaþreytu í styrktaræfingum) beri bestan árangur gegn síþreytu. Hæfilegt álag og almennt áreiti í daglegu lífi og hvíld eru hluti af okkar helstu vopnum gegn þessum kvilla. Mikilvægt er þó að muna að oft er nauðsynlegt að byrja á því að hreyfa sig aðeins til að ná betri hvíld því krabbameinstengd þreyta hverfur ekkert endilega bara við hvíld. Rannsókn hefur sýnt fram á að 15-20 mín hvíld/slökun yfir daginn þar sem við kúplum okkur alveg út getur gert gæfumuninn og endurhlaðið batteríin okkar. Mikilvægt að fara ekki yfir þann tíma svo við förum ekki að hafa neikvæð áhrif á nætursvefninn, þetta má endurtaka oftar enn 1 sinni yfir daginn ef þörf er fyrir það.

Þjálfun minnkar alltaf áhrif á síþreytu. Nauðsynlegt er að hefja líkamlega þjálfun sem fyrst en til langtíma litið skiptir ekki öllu máli hvenær byrjað er. Það er aldrei of seint að byrja!

Mikilvægi hvíldar er mikið

Smáforrit fyrir snjalltæki (App): Það er greinilegt að eftir covid tímabilið eru margir farnir að huga að því að nýta einnig rafrænar leiðir til að ná til einstaklinga. Það sást meðal annars á ráðstefnunni því að margar af nýju rannsóknunum snúa að því að rannsakendur eru farnir að nýta smáforrit/app sem þjálfara eða tæki til að leiðbeina og aðstoða fólk með sína endurhæfingu. Meðal annars á rafræna leiðin að minnka vegalengdir, jafna aðgang allra að faglegri endurhæfingu og tengist það því að kostnaði sé haldið í lágmarki. Þó var mismunandi á milli smáforrita/app hvort það var gervigreind eða fagmaður sem var tengiliður inni í smáforritið/appið.

Mikilvæg skilaboð af ráðstefnunni er að það er mikilvægt að aðlaga endurhæfingaplanið eftir því hvar þú ert staddur í meðferðarferlinu, Einnig er stignum í þjálfuninni mjög mikilvæg til að ná árangri. Mikilvægt er að sinna öllum hliðum endurhæfingarinnar til að ná sem allra bestum árangri.

Rannsóknir sýna fram á að þjálfun undir handleiðslu fagfólks skilar alltaf betri árangri. Ástæðan er meðal annars sú að þegar þú þjálfar undir handleiðslu með öðrum. Ósjálfrátt reynirðu aðeins meira á þig, gerir aðeins meira og ávinningurinn af því að fá hjartsláttinn almennilega upp skilar þér betri þoli sem gagnast þér þá vel fyrir, á meðan og eftir meðferð. Í styrktarþjálfun þá þorirðu frekar að taka aðeins þyngra eða ferð einnig í leiðinlegu teygjurnar sem þú annars myndir sleppa. Til þess að fá sem besta alhliða útkomu er mikilvægt að sinna fjölbreyttri þjálfun það er: styrktar- þol- og liðleikaþjálfun.

Rannsóknir sýna fram á að þjálfun undir handleiðslu fagfólks skilar alltaf betri árangri. Það er ekki verra ef það er hópur eins og þessi

Það er greinilegt að mikilvægi líkamlegrar endurhæfingar er mikið

Í Ljósinu segjum við að endurhæfing hefjist við greiningu en rannsóknir sýna að það heldur manni virkum og auðveldar að byggja upp að meðferð lokinni

Námskeið um lungakrabbamein – For- og endurhæfing

Á laugardeginum var námskeið um endurhæfingu fólks með lungnakrabbamein, hjá Dr. Morten Quist. Hann er sjúkraþjálfari sem starfar við rannsóknir á þjálfun f. Krabbameinsgreinda við Ríkisspítalann í Kaupmannahöfn Hospital for Health Research.

Samkvæmt nýjustu tölum í Danmörku er meðalaldur einstaklinga sem greinast með lungnakrabbamein 70 ár sem er sami aldur og er á Íslandi. Meðferðin við lungnakarabbameinum er mismunandi eftir gerð krabbameins. Meðferðarmöguleikarnir við lungnakrabbameini eru nokkrir og hafa aukist undanfarin ár en það er aðgerð, geislameðferð, lyfjameðferð ( chemo og Immunetherapy).

Mikilvægt er að byrja endurhæfingu og þjálfun strax við greiningu því þjálfun undirbýr líkamann á að takast á við komandi meðferð eins og við lýstum í forhæfingar kaflanum okkar.

Helstu aukaverkanir við meðferð við lungnakrabbameini eru:

• Lækkun á blóðflögum

• Ógleði og uppköst

• Niðurgangur

• Síþreyta

• Hármissir

• Úttaugaskaði

• Minnkuð matarlyst

• Munn-og hálssærindi

• Húðvandamál

• Harðlífi

Enn að sjálfsögðu er mjög einstaklingsbundið hve miklar og hvaða aukaverkanir einstaklingar fá.

Mikilvægt er að líta heildrænt á einstaklinginn og byrja þjálfun við greiningu. Þjálfarar Ljóssins taka stöðuna jafnóðum og skipuleggja ferlið út frá því. Enn við spjall við kollega okkar frá öðrum löndum virtist sem ferlið væri mun hægara og hver starfstétt sinnir sínum verkefnum nokkuð afmarkað og virtist leiðin því að þverfaglegri endurhæfingu vera lengri en hér hjá okkur í Ljósinu.

Hlutverk hreyfingar fyrir einstaklinga með lungnakrabbamein getur haft bæði lífeðlisfræðileg og sálfræðileg áhrif.

Hlutverk hreyfingar fyrir einstaklinga með lungnakrabbamein getur haft bæði lífeðlisfræðileg og sálfræðileg áhrif. Lífeðlisfræðilegu áhrifin eru m.a. aukin styrkur, betri hjarta-og æðaheilsa og almennt betri líkamleg virkni. Sálfræðilegu áhrifin eru m.a. minnkað streitustig og minni kvíða-og þunglyndiseinkenni og betri þátttaka í athöfum daglegs lífs. Áhrifin fyrir einstaklinginn leiða þá að betri lífsgæðum og aukinni þátttöku í sínum daglegum venjum.

Þjálfarar Ljóssins nálgast störf sín af mikilli fagmennsku en einnig gleði

3 stig endurhæfingar

Það er í raun hægt að deila endurhæfingunni eða þjálfuninni upp í 3 stig allt eftir því hvar fólk er statt með sinn sjúkdóm, enn það er í forhæfing (Prehabilitation), endurhæfing (Rehabilitation), Viðhaldsþjálfun (Pallation)

Forhæfing (Prehabilitation): Undirbúningur fyrir meðferð. Mikilvægt er að halda áfram með þjálfun eða jafnvel að byrja sem fyrst þjálfun til að undirbúa einstakling sem best fyrir komandi meðferð. Rannsóknir sýna að því betra líkamlegra formi einstaklingar eru þegar þeir fara í meðferð því betur eru þeir í stakk búnir til að takast á við komandi meðferð. Samkvæmt nýjustu rannsóknum er alltaf að koma meira og meira í ljós mikilvægi þess að undirbúningur fyrir meðferð skiptir miklu máli.

Endurhæfing (Rehabilitation): Til að einstaklingar geti endurheimt og viðhalið virkni í daglegu lífi er nauðsynlegt að stunda endurhæfingu samhliða og eftir meðferð. Endurhæfing felur í sér skipulagða hreyfingu þar sem einstaklingar reyna á sig eftir sínu líkamlega ástandi. Með það markmið að draga úr neikvæðum áhrifum meðferðirnar og ná fram bætingu á líkamlegri getu eftir að meðferð líkur.

Viðhaldsþjálfun Pallation: Þjálfun samhliða langvinnum sjúkdómi hvort sem einstaklingur sé í meðferð eða ekki með það að markmiði að viðhalda líkamlegri getu eins góðri og lengi og mögulegt er. Hreyfing getur hjálpað einstaklingum að lifa eins góðu og virku lífi í lengri tíma en annars. Þjálfun hjálpar einstaklingum við að viðhalda sjálfstæði sínu í athöfnum daglegs lífs í lengri tíma.