Handverk sem heilsuefling

Höfundar

Elínborg Hákonardóttir

Guðný Katrín Einarsdóttir

Ljósmyndari

Aðsendar myndir

Í október fóru fjórir starfmenn í Ljósinu á ráðstefnuna "Craft og sundhedsfremme" í Rönde á Jótlandi. Bogga og Erla sem sjá um handverkið í Ljósinu og Guðný Katrín og Louisa iðjuþjálfar hafa allar mikinn áhuga á handverki og hvernig það getur bæði stutt við endurhæfingu og bætt daglegt líf. Var þetta hin líflegasta ráðstefna með skemmtilegri blöndu af fyrirlestrum og vinnustofum í ýmis konar handverki.

Það sem var líka ánægjulegt við þessa ráðstefnu að þrátt fyrir stífa dagskrá var andrúmsloftið afslappað og ánægjulegt þar sem þátttakendur voru hvattir til að sinna eigin handverki á meðan hlustað var á fyrirlestra.

Í árdaga iðjuþjálfunar var hvers konar handverk stór hluti meðferðar iðjuþjálfa. Það var notað til að þjálfa upp handfimi, úthald og vinnufærni, en einnig til að auka vellíðan og trú á eigin getu. Áherslan á handverk hefur breyst í áranna rás og handverk er nú mun minna nýtt en áður. Það er því ánægjulegt að komnar eru fram kenningar og rannsóknir sem færa rök fyrir gildi handverks fyrir heilsu og vellíðan fólks Þetta var meðal umfjöllunarefna á ráðstefnunni “Craft og sundhedsfremme”.

Það er í eðli okkar að nota hendurnar til að framleiða og skapa. Ein helsta ástæða þess að við höfum náð langt sem dýrategund er að við gátum virkjað huga og hönd til að byggja þak yfir höfuðið og útbúa fatnað. Þó að þetta sé ekki lengur nauðsynleg iðja hjá flestu nútímafólki, er sú ánægja og vellíðan sem skapast við að búa eitthvað til í höndum svo sannarlega enn til staðar.

Tilgangur og markmið handverks getur verið margþættur. Handverk getur haft hagnýtt gildi, verið leið til tjáningar, að skapa fallega hluti og upplifa sig sem hluta af hópi. Margir eru sömuleiðis áhugasamir um að varðveita verkþekkingu og menningararf eða að nýta efnivið af umhverfissjónarmiðum.

Gjarnan er talað um að komast í flæði (e. flow) en samkvæmt kenningum Csikszentmihalyi er það ástand vellíðunar við iðju þegar einstaklingurinn er svo niðursokkinn að ekkert annað kemst að, verkefnið á hug hans allan og hann gleymir jafnvel stund og stað. Hlutirnir virðast gerast án áreynslu og hæfileikar hans eru fullnýttir.

Verkefnið þarf að vera hæfilega krefjandi, þannig að það krefjist fullrar athygli og einbeitingar, en ekki það erfitt að við gefumst upp. Mikilvægt er að aðlaga iðjuna að einstaklingnum, þannig að erfileikastigið sé hæfilegt fyrir hvern og einn.

Við getum upplifað flæði í tómstundum okkar og þegar við vinnum við það sem við brennum fyrir, t.d. við taflmennsku, í dansi, við að mála, spila á hljóðfæri, skrifa, syngja, smíða og í íþróttum. Iðjan sem framkallar flæði er eins fjölbreytt og fólkið sem stundar hana.

Á ráðstefnunni voru nokkrir fyrirlesarara sem áttu það sameiginlegt að hafa lent í stórum áföllum. Sögðu þau frá því hvernig þau notuð handverk markvisst sem leið til að ná bata og bættum lífsgæðum. Það er mikilvægt að miða við stöðuna eins og hún er hverju sinni. Ef til vill eru flókin verkefni sem þú réðir vel við fyrir veikindin ekki hentug. Það getur t.d. þurft að velja sér einfaldari uppskrift, grófari prjóna, sleppa samanburðinum og fullkomnunaráráttunni, njóta handverksins og leyfa sér að leika og komast í flæði.

Lene Karup Sørensen sagði frá því hvernig hún notaði útsaum til að komast í flæði og gleyma sér í áhugaverðu verkefni. Í langri og erfiðri krabbameinsmeðferð fannst henni erfitt að hugsa um framtíðina, umhverfið á spítalanum var krefjandi en í með útsauminum upplifði hún eins konar rörsýn, sogaðist inn í heim bróderísins og var í núinu. Hún upplifði frelsi við iðjuna, frelsi frá væntingum og stífum markmiðum og gat tjáð tilfinningar sínar og líðan í gegnum útsauminn.

Handverk getur líka hjálpað okkur við að ná slökun og hugarró. Taktfastar síendurteknar hreyfinga sem krefjast ekki mikillar einbeitingar geta virkað róandi, t.d. einfalt prjónaverkefni eða “teiknidútl”. Slíkt handverk getur gefið okkur frí frá erfiðum hugsunum, aukið hugarró og jafnvel bætt einbeitingu. Þegar við sinnum léttu handverki er mögulegt að hlusta samtímis og tökum við jafnvel betur eftir þar sem við erum að virkja heilann með handverkinu.

Á ráðstefnunni lærðum við Ýmislegt hagnýtt varðandi uppbyggingu handverksnámskeiða og mat á erfiðleikastig verkefna. Hvernig hægt er að gera þau byrjendavæn, þannig að verkefnið krefjist ekki fyrri kunnáttu eða færni til að komast fljótt inn í það og njóta. Við fengum tækifæri til að prófa nýtt handverk, fengum ýmis konar innblástur og upplifðum flæði þegar við vorum að prófa nýja hluti. Þegar við leiðbeinum við handverk í Ljósinu fylgjumst við allan tímann með nemendum okkar, hvernig þeim gengur og vher staðan er á verkefnum þeirra. Að fá tækifæri til að vera sjálfar nemendur undir handleiðslu reyndra leiðbeinenda var í senn ómetanleg upplifun og leið til að verða enn betri í því sem við gerum.

Þegar ráðstefnunni lauk tókum við ferjuna til Kaupmannahafnar og fórum á námskeið í japönsku handverki sem heitir Suminagashi sem er japönsk aðferð við að gera marmaramynstur á pappír.

Marie Frøhlich hitti okkur í stúdíóinu sínu þar sem hún bauð okkur upp á kaffi og deildi með okkur hvernig hún leiddist út í þetta handverk sem hún kynntist þegar hún var að læra pappírsgerð í japan og sýndi okkur hvernig allt fór fram. Við munduðum sjálfar tvo pensla annar með bleki, vatni og hinn með örlítilli sápu og hófumst handa við að leika okkur með hringina sem mynduðust á vatnsyfirborðinu.

Við komum heim fullar af eldmóði og góðum hugmyndum, enn sannfærðari um það en áður hversu mikilvægur hluti af starfsins í Ljósinu handverkið er.