Saga iðjuþjálfunar
Höfundur
Hólmfríður Einarsdóttir
Ljósmyndari
Sólveig Kolbrún Pálsdóttir
Starfsemi Ljóssins byggir á einni af hugmyndafræðum iðjuþjálfunar, Líkaninu um iðju mannsins (Model of human occupation/MOHO). Þar er áherslan á iðjuna að sjálfsögðu en einnig viljann til að stunda iðju, vanamynstrið okkar, hlutverkin og hvernig sjálfsmynd okkar þróast út frá þeirri iðju sem við stundum. Stofnandi Ljóssins, Erna Magnúsdóttir er iðjuþjálfi og auk hennar starfa þar 12 aðrir iðjuþjálfar. Markmið iðjuþjálfa er að bæta heilsu og lífsgæði fólks með því að efla sjálfstæði, stuðla að þátttöku og auka vellíðan í gegnum iðju. Við vitum að skjólstæðingar Ljóssins hafa flestir kynnst starfi iðjuþjálfa en þrátt fyrir það er fagið ekki þekkt. Því fannst okkur tilvalið að fara aðeins yfir sögu iðjuþjálfunar, bæði erlendis og hérlendis. Við stiklum á stóru svo það sé sagt og mörg merk nöfn eru ekki nefnd sem gerir þeirra störf þó alls ekki síðri.
Við spólum aftur í tímann og hefjum þessa frásögn í kringum aldamótin 1900 í Bandaríkjunum. Þá var mannúðarstefna, sérstaklega í umönnun geðsjúkra, að ryðja sér rúms og ákveðnir forsprakkar að leita róttækra leiða til að stuðla að meira uppörvandi og samúðarfyllri nálgun í garð þessa sjúklingahóps. Þar var hvatt til sjálfsstjórnar og uppbyggingu sjálfstrausts í gegnum tómstundir og vinnutengda iðju. Vakin var athygli á hversu mikilvægt það er að hafa eitthvað fyrir stafni og hvað iðja hefur mikil áhrif á líf okkar og vellíðan. Einn þessara forsprakka var Adolf Meyer geðlæknir en hann hefur verið nefndur hugmyndafræðilegur faðir iðjuþjálfunar. Adolf Meyer lagði áherslu á mikilvægi félagslegra þátta, rútínur og venjur, samspil einstaklings og umhverfis og sköpun. Hann taldi mikilvægt að nálgast einstaklinginn af virðingu og heyra lífssögu hans í gegnum viðtöl áður en ákveðið væri hvaða meðferð yrði fyrir valinu.
Í byrjun 20. aldar urðu einnig til ýmsar lista- og handverkshreyfingar, sérstaklega á meðal innflytjenda í Bandaríkjunum. Sem meðferð í bataferli var áhersla á vinnu í höndunum og að halda tengslum við eigin menningu og náttúruna með því að vinna með tré, ull, steina og fleira. Í kjölfar fyrri heimsstyrjaldarinnar verða ýmsar félagslegar og pólitískar umbætur varðandi meðferðir og heilbrigðisþjónustu. Þessi tími markar upphaf iðjuþjálfunar sem faggrein. Þátttaka iðjuþjálfa í meðferðum berklasjúklinga og hermanna með geðrænan vanda og líkamlegar skerðingar var mikil, Bandaríska iðjuþjálfafélagið var stofnað og fyrsta kennslan fyrir iðjuþjálfa var sett á laggirnar fyrir tilstillan Eleanor Clark Slagle. Því má segja að upphaf iðjuþjálfunar sé í Bandaríkjunum. Kanada fylgdi svo fast á eftir auk þess sem margir hugmyndasmiðir komu frá Bretlandi og Frakklandi.
Næstu áratugina óx stéttin jafnt og þétt og ákveðin þróun í fagmennsku átti sér stað. Má þar sérstaklega nefna starf iðjuþjálfa með samspil umhverfis og einstaklings og taugakerfið og skynúrvinnslu. En greinin tókst einnig á við ýmsar áskoranir. Ein þeirra var tengd því hversu erfitt var að staðsetja hvar fagið ætti heima vegna heildrænnar nálgunar hennar. Stéttin hafði löngum verið sett undir hatt læknisfræðinnar vegna náins samstarfs við lækna á sjúkrahúsum en upp úr 1980 hófst tími endurreisnar í faginu. Gary Kielhofner var þar fremstur í broddi fylkingar og hafði mikil áhrif á hugmyndafræðilega þróun fagsins og var sá áhrifavaldur sem fékk iðjuþjálfa til að finna tengslin við rætur sínar og þessa heildrænu sýn sem hafði einkennt fagið. Þróun og vöxtur fagsins í Evrópu er einnig mikill á þessum tíma. Þessa tvo síðustu áratugi aldarinnar varð eftirspurn eftir meðferðarsérfræðingum í iðjuþjálfun meiri, mikil gróska var í iðjukenningum og iðjuvísindi urðu að fræðigrein.
Viljahringurinn er eitt verkfæranna sem iðjuþjálfarnir í Ljósinu nýta sér. Vilji samanstendur af hugsunum okkar og tilfinningum um það sem er okkur mikilvægt, gildi okkar. Hvernig við skynjum það sem við getum gert, hversu vel við gerum það og hvað veitir okkur ánægju hefur einnig áhrif á viljann. Reynsla okkar, túlkun á upplifunum, væntingar og það sem við veljum að gera hefur allt áhrif á viljann og það eru meiri líkur á að við tökum að okkur verkefni sem skipta okkur máli, þau sem við höfum áhuga á og trúum að við getum leyst. Þegar okkur tekst vel upp eða höfum ánægju af því sem við prófum erum við alltaf líklegri til að vilja gera það aftur.
Á Íslandi má rekja upphaf iðjuþjálfunar til dr. Helga Tómassonar geðlæknis þegar hann skrifaði grein um vinnulækningar árið 1936. Í greininni vakti hann athygli á jákvæðum áhrifum vinnu á sál og líkama og hvernig iðja væri kjörin til að vekja áhuga fólks, auka sjálfstraust og gefa fólki tækifæri til að gera gagn í þjóðfélaginu. Þessari hugmyndafræði beitti hann með sínum skjólstæðingum frá árinu 1933 og hefur því hugmyndafræði iðjuþjálfunar í einhverri mynd verið við lýði á Kleppsspítala (geðsvið Landspítala) í 90 ár. Árin liðu og fyrsti íslenski iðjuþjálfinn, Jóna Kristófersdóttir, útskrifaðist frá skóla í Danmörku árið 1944. Árið eftir hóf hún störf á Kleppsspítala þar sem dr. Helgi Tómasson studdi hana heilshugar í sínu starfi. Stuttu eftir komu Jónu á Kleppsspítala var komin heil bygging fyrir starfsemi iðjuþjálfunar. Svipaða sögu má segja um berklasjúka. Iðju- og tilgangsleysi hafði mikil áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu þeirra. Samband íslenskra berklasjúklinga beittu sér fyrir því að vinnuhæli yrði stofnað fyrir útskrifaða berklasjúklinga. Þar gætu þeir fengið vinnu við hæfi í þeim tilgangi að auka bjartsýni, byggja upp jákvæða sjálfsmynd og verða aftur nýtir þjóðfélagsþegnar. Þetta varð að veruleika þegar Vinnuheimilið að Reykjalundi hóf starfsemi sína árið 1945 og nokkrum árum síðar í Kristnesi í Eyjafirði.
Jóna Kristófersdóttir var eini iðjuþjálfinn á Íslandi í tæp 20 ár. Á sjöunda áratugnum bættust fleiri hægt og rólega í hópinn, bæði íslenskir og erlendir. Má þar nefna Kristínu Tómasdóttur (1963) og Hope Knútsson en þær tóku báðar þátt í stofnun iðjuþjálfafélagsins í mars árið 1976 ásamt öðrum iðjuþjálfum sem sinntu ekki síður mikilvægum hlutverkum í uppbyggingunni. Hope var formaður félagsins í 22 ár. Iðjuþjálfafélagið varð fljótt virkt í alþjóðlegu samstarfi og naut félagið og íslenskir iðjuþjálfar góðs af alþjóðlegum tengslum Hope. Hún var einnig ötull talsmaður stéttarinnar og þess að nám í iðjuþjálfun yrði sett á laggirnar á Íslandi en framan af höfðu íslensku iðjuþjálfarnir flestir lært í Danmörku. Á þessum tíma fór mikil vinna og tími í að kynna fagið fyrir öðrum fagstéttum innan heilbrigðisstofnana, samfélaginu og væntanlegum nemendum í iðjuþjálfun. Hagsmuna- og kjarabaráttur tóku sinn sess og samningaviðræður við Tryggingastofnun. Lög um iðjuþjálfun voru samþykkt á Alþingi 1977 og fyrsta fréttablaðið kom út 1979 sem í dag er fagblaðið Iðjuþjálfinn. Námsbraut í iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri hófst árið 1997 og fjórum árum síðar útskrifaðist fyrsti iðjuþjálfinn með prófskírteini frá Íslandi. Námið hefur vaxið með hæðum og lægðum og í dag býður Háskólinn á Akureyri upp á þriggja ára BS nám í iðjuþjálfunarfræðum og eitt ár sem er skilgreint starfsréttindanám á meistarastigi og lýkur því með viðbótardiplóma gráðu fyrir þá sem ætla að starfa sem iðjuþjálfar.
Íslenskir iðjuþjálfar hafa komið víða við. Í dag starfa þeir með börnum og fullorðnum sem takast á við ólíkar áskoranir vegna veikinda eða skerðingar. Stór hluti iðjuþjálfa vinnur á sjúkra- og endurhæfingarstofnunum en einnig í leik- og grunnskólum, heimaþjónustu, hjá einkafyrirtækjum og í sjálfstæðum rekstri svo dæmi séu tekin. Vinna þeirra er fjölbreytt og byggir bæði á beinu starfi með fólki, rannsóknum og vísindavinnu. Eitt slíkt dæmi er þróun Guðrúnar Árnadóttur á matstækinu A-ONE (The ADL-focused Occupation-based Neurobehavioral Evaluation) sem var fyrst gefið út í Bandaríkjunum árið 1990. Matstækið er notað til að meta hvernig skert heila- og taugastarfsemi hefur áhrif á framkvæmd daglegrar athafna. Í dag er A-ONE notað um allan heim í vinnu með fólki með skerðingar á miðtaugakerfinu.
Fyrsta íslenska bókin um iðjuþjálfun var gefin út árið 2011 undir ritstjórn Guðrúnar Pálmadóttur og Snæfríðar Þóru Egilson. Hún ber nafnið „Iðja, heilsa og velferð – Iðjuþjálfun í íslensku samfélagi.“ Þó iðjuþjálfun á Íslandi hafi vaxið og þróast enn meira frá útgáfu bókarinnar markaði bókin ákveðin tímamót. Í stuttu máli segir bókin frá starfi iðjuþjálfa með ólíkum skjólstæðingshópum, þróun þess og sögu bæði hérlendis og erlendis. Bókin er nýtt sem námsefni í iðjuþjálfun og úr henni koma ýmsir fróðleiksmolar sem eru í þessari grein. Þróun iðjuþjálfunar er mikil og hröð í heiminum í dag og gagnreyndar rannsóknir um iðjuþjálfun á ýmsum sviðum birtast reglulega í fagtímaritum. Iðjuþjálfun á hamfarasvæðum, stríðsátökum og í sértækri endurhæfingu við áfallastreitu eru meðal nýrra sviða iðjuþjálfunar og fagið er í stöðugri þróun. Iðjuþjálfar í Ljósinu fylgjast vel með því sem er að gerast með því að kynna sér nýjar rannsóknir og gera sér far um að fara á ráðstefnur hérlendis og erlendis til að auka við þekkingu sína og færni. Iðjuþjálfun á Íslandi uppfyllir allar þær kröfur sem þarf til að vera fagstétt enda hefur barátta stéttarinnar alla tíð snúið af faglegri þekkingu og vinnubrögðum. Vonandi mun stéttin halda áfram að stækka með vaxandi þörf fyrir iðjuþjálfa í þjóðfélaginu.