Tók enga sénsa á veðri í ferlinu
Guðrún segist hafa fundið fyrir óeðlilegri spennu í brjóstunum í mars árið 2022. Ég þurfti að fara til læknis af öðrum ástæðum, og bað í leiðinni um að yrði send beiðni um brjóstamyndatöku. Í júní var ekki enn komin boðun í brjóstamyndatöku. Þannig að ég fékk aftur tíma hjá lækninum og hann sendi aftur beiðni og þá fór boltinn af stað, ég fór í myndatöku í byrjun júlí og það var tekið sýni um leið. Þá hafði ég fundið fyrir kúlu í brjóstinu í nokkurn tíma.“
Aðspurð um hvort hún hafi alltaf mætt í reglubundnu skimanirnar segist Guðrún halda það en segir að þegar krabbameinsskoðanirnar fluttust frá Krabbameinsfélaginu til Heilsugæslunnar hafi boðanir í þær breyst. Áður hafi hún líkt og aðrar konur fengið einfalt spjald heim með póstinum með áminningu um að panta,tíma í skoðun. „En svo fór að koma bréf í A4 blaði með alltof miklum upplýsingum og neðst í bréfinu stóð svo að maður eigi að panta tíma, mögulega fór etthvað af þeim framhjá mér. Nú fær maður SMS skilaboð. Mér fannst mjög skrýtið að fá boðun í brjóstaskimun núna í haust þegar ég var enn í meðferð.“
Guðrún fékk síðan símtal um að hún þyrfti að mæta aftur í myndatöku þar sem það fór ekki saman stærð á æxlinu í röntgenmynd og segulómun af brjóstinu, þurfti hún því einnig að fara í segulómun til að ákvarða hvort hún myndi byrja í lyfjagjöf eða aðgerð. „Ef meinið er yfir 2 sm þá fer maður fyrst í lyfjagjöf. Ég fór því í segulómun og þá kom í ljós að æxlið var stærra en 2 sm. Og bara nokkrum dögum seinna byrjaði ég í lyfjagjöf.“
Þar sem Guðrún býr á Ísafirði hefur hún að mestu leyti þurft að fara til Reykjavíkur í meðferðarferlinu. Þau hjónin tóku enga sénsa, sérstaklega þegar kom að veðurfari, og voru alltaf mætt suður tveimur dögum fyrir lyfjagjöf. „Ég var oftast í lyfjagjöfum á mánudögum og yfirleitt lögðum við af stað á laugardegi. Fyrsta lyfjagjöf er alltaf í Reykjavík, það er upp á ofnæmisviðbrögð að gera, ef eitthvað kemur upp á þá vilja þau að maður sé í Reykjavík. Mín lyfjagjöf var víst líka flókin, ég fékk fjögur lyf í einu, og allar stærri lyfjagjafir fara fram fyrir sunnan. Maður leggst ekki inn þegar maður fer í lyfjagjöf og við gistum á sjúkrahótelinu sem er mjög fínt, aðstandendur geta verið með þar og kostar ekki mikið.“
Það er ljóst að það fylgir mikill aukatími og kostnaður því að sækja læknisþjónustu ítrekað til höfuðborgarinnar. Guðrún segir að maðurinn hennar hafi auk þess tekið sér frí frá vinnu til að fara með henni. Ferðakostnaðurinn er þó endurgreiddur hjá Tryggingastofnun fyrir sjúklinginn, ekki aðstandanda, því var ódýrara að keyra en fljúga. „Þegar maður greinist með krabbamein þá fær maður ótakmarkaðan fjölda ferða í fimm ár og hægt að sækja um endurgreiðslu fyrir hverja ferð, það þarf ekki að safna þeim upp. Síðan er krabbameinsfélagið Sigurvon hér á Ísafirði og ég get sótt um styrk þar til að koma til móts við kostnaðinn af sjúkrahótelinu..“
Í Ljósinu allan mars
Guðrún var í Reykjavík allan marsmánuð þegar hún var í geislameðferð og því ákvað hún að vera dugleg að mæta í húsnæði Ljóssins, þar sem henni gafst nú kostur á því. Þegar hún mætti í fyrsta sinn í viðtal til iðjuþjálfa var eiginmaður hennar með henni, en Guðrún segir að það hafi verið aðeins erfiðara að mæta ein.
„Það er rosalega gott að koma í Ljósið. Í fyrsta sinn sem ég mætti ein, þá þorði ég ekki að setjast í sófann, og settist bara við borðin sem eru fremst. Þá kom ein úr afgreiðslunni og settist hjá mér og fór að spjalla. Sem mér fannst alveg æðislegt. Í annað skipti sat ég við borðin að bíða milli námskeiða og þá kom Berglind iðjuþjálfinn minn og settist hjá mér, svo dró hún mig með sér í sófann að spjalla við konurnar sem sátu þar og þar með var sá björn unninn. Ég er ekki mjög opin út á við, er bara frekar mikill introvert og þá er það stórt skref að stíga að fara svona ein,“ segir Guðrún og segist einmitt vera að fara langt út fyrir þægindarammann að koma fram í viðtali. „En eins og Berglind iðjuþjálfi sagði: „hringurinn þrengist alltaf ef þú ýtir ekki í kantana á honum.“
„Í mars var ég nær daglega í Ljósinu, stundum jafnvel tvisvar á dag, ef ég var í tækjasalnum fyrir hádegi og svo einhverju öðru eftir hádegi. Ég fór í viðtal til sjúkraþjálfarans míns, fór í tækjasalinn eins oft og ég gat, mætti á fræðslufyrirlestra í Græna salnum og lærði að tálga í handverkinu á fimmtudögum svo er alltaf nýtt föstudagsnámskeið í hverjum mánuði. Í mars var ræktun kryddjurta og ég fór á það og var því með kryddjurtir í glugganum á sjúkrahótelinu,“ segir Guðrún.
„Svo er mikið af námskeiðum hjá Ljósinu sem kennd eru í gegnum Zoom og ég tók þau hér heima. Ég tók líka styrktarþjálfun í gegnum netið sem var í boði um haustið, og Yoga Nidra sem er á föstudögum og ég er enn í því, það námskeið er æðislegt. Ég hef reynt að nýta mér öll námskeið og fræðslu sem í boði er á netinu eins og Grunnfræðsluna og Aftur til náms og vinnu. Þegar maður er meira og minna einn heima á daginn þá var það að setjast við borðstofuborðið með tölvuna og hlusta á fyrirlestur eins og að mæta eitthvert og það braut upp tilbreytingarlausa daga.“
Guðrún var í síðustu lyfjagjöfinni deginum áður en viðtalið var tekið. „Ég fór í þessar sex stóru lyfjagjafir um haustið, fleygskurð í janúar og geisla í mars, en af því æxlið var ennþá yfir 2 sm og líf í því þegar það var tekið þá þurfti ég öflugri eftirmeðferð en ætlað var í upphafi. Krabbameinið var bæði hormónajákvætt og HER2-jákvætt. Ég vissi frá upphafi að það væri HER2-jákvætt og að ég þyrfti í fyrirbyggjandi lyfjagjöf eftir á, sem átti að vera út júlí en þá bara sprautur í lærið. En af því meinið var svona stórt og líf í því varð eftirmeðferðin öflugri, og fékk ég því lyf sem heitir Kadcyla, sem var í formi lyfjagjafar í 14 skipti. Fyrir utan fyrstu lyfjagjöfina sem eins og áður sagði fór fram í Reykjavík vegna ofnæmisviðbragðanna, þá gat ég tekið hinar hér heima. Í mars byrjaði ég líka að taka andhormónatöflur sem ég tek inn daglega.“