„Lykillinn í þessu er að hlæja bara nógu mikið“

Höfundur

Viktoría Hermannsdóttir

Ljósmyndari

Ólöf Erla

Erlendur Traustason og Haraldur Svavarsson eða Elli og Halli þekkja vel til Ljóssins. Báðir hafa þeir glímt við krabbamein um skeið og sótt endurhæfingu í Ljósið. Í þessu hlaðvarpi sest Viktoría Hermannsdóttir niður með þeim félögum og ræðir um greininguna, endurhæfinguna og hvað ferlið hefur kennt þeim - Hér fyrir neðan má einnig lesa texta lýsingu á spjalli Viktoríu við þá félaga ásamt því að finna frábærar myndir af félögunum.

Það er stutt í gleðina hjá þessu skemmtilega tvíeyki

Halli fór í rannsóknir þar sem talið var að hann væri með gallsteina en í ljós kom að krabbamein hafði myndast í nýra. Æxlið, sem var á stærð við appelsínu, var ekki skurðtækt og því hóf Halli lyfjameðferð með líftæknilyfjum sem gefist hafa vel. „Það voru vonbrigði að ekki væri auðvelt að taka æxlið“ segir Halli við Viktoríu í spjalli sínu en þegar hann vaknaði sá hann að aðgerðin hefði nú ekki getað verið löng „en það þurfti bara að skipta um gír“ bætir hann við.

Erlendur greinist þegar hann hafði sótt þjónustu á bráðamóttöku en þá höfðu meinvörp um beinagrind og blettur í lunga valdið usla. Miðað við stærð krabbameins og dreifingu var ekki hægt að skera eða geisla. Hann hóf því lyfjagjöf sem lauk í febrúar og gekk meinið vel til baka í lungum og kennir hann sér lítils meins í kroppnum í dag.

Kynntust í Ljósinu

Erlendur og Haraldur þekktust ekki áður en þeir greindust en kynntust í Ljósinu. Elli brunaði í Ljósið fljótlega eftir greiningu til að nýta sér alla þá kosti sem voru í boði. „Það má eiginlega segja að það hafi bjargað mér“ en hann lýsir hvernig hann hefur sótt sálfræðiþjónustu, iðjuþjálfun, líkamlega endurhæfingu, slökun, námskeið og handverk. „Svo eru þeir að stríða mér hérna sumir því ég er að sauma, sem er mjög gaman“. Streittist ekkert á móti eins og sumir gera, og þarf að teyma þarna inn.

Halli hafði heyrt um Ljósið en fannst hann ekki nógu mikill sjúklingur til að sækja endurhæfingu. Frænka hans hafði þó sótt endurhæfingu í Ljósið og sannfærði hann um að kíkja á kynningarfund og fljótt var hann byrjaður að sækja námskeið, líkamlega endurhæfingu og fleira. „Það er gott fólk þarna, viðhorfið og ég hef gott af því að taka smá leiðsögn“.

„Við peppum hvorn annan upp og höfum gaman“ segir Elli, „Lykillinn í þessu er að hlæja bara nógu mikið, við erum ekkert að ræða þetta krabbamein“ bætir Halli við.

Tilfinningar er hættulegt orð

„Við mættum saman í karlafræðsluna og á föstudögum mætum við á fund með körlunum. Gefandi og gott að hafa þessa fundi.“ segir Halli en tal þeirra berst að heiti námskeiða og ræða þeir að Karlafræðslan í Ljósinu hafi áður heitið nafni sem tengdist tilfinningum en þá mættu karlarnir ekki. Þegar nafninu var breytt þá hafi þeir hins vegar mætti. „Tilfinningar eru hættulegt orð, við erum fullir af þeim en það bara má ekki tala um þær“ segir Elli. „Við erum aldir upp í kynslóð sem mátti ekki tala um þær“ bætir Halli við.

Halli segir þó að hann hafi markvisst tekið leiðsögn í samtali um tilfinningar þar sem kvíðinn tók yfirhöndina og þá þurfti að horfast í augu við tilfinningarnar. Hann er sannfærður um að það hafi hjálpað að þekkja tilfinningar sínar þegar hann greindist.

Elli segir að hjálpin í Ljósinu hafi verið á öllum sviðum þegar hann greindist. Hann sótti sálfræðiþjónustu og slökun sem meðal annars hjálpaði við innilokunarkenndina sem vaknaði í myndatökum. „Að geta lagst á bekkinn niðri á landspítala og farið í sinn eiginn heim á meðan á því stendur og klárað það“.

„Maður lítur á tilveruna öðruvísi“

Elli, sem er bifreiðasmiður og bílamálari og Halli sem er rafvirki hjá Ístak segja báðir að það hafi verið mikil viðbrigði að hverfa frá vinnu. „Það erfiðasta var að vera frá vinnu. Það var sektarkennd og mér fannst ég ekki vera nógu veikur til að vera heima. Ég var bara alltaf á leiðinni í vinnuna“ segir Halli. „Það var ekkert á batteríinu, það var tómt“ bætir Elli við.

Þegar Viktoría innir þá félaga eftir hvort að lífið hafi eitthvað breyst segir Elli að hann voni það að lífð hafi breyst til hins betra. „Skárri í jákvæðninni og ekki alltaf verið að vinna“. „Maður lítur á tilveruna öðruvísi“ segir Halli og nefnir að orkan sé ekki mikil og því þurfi að passa upp á úthaldið, jafnvel að taka smá pásu til að hvílast um miðjan dag. „Það er ekkert annað í boði en að lesa aðeins í sjálfan sig“ og segir að andinn verði bara eftir ef maður er á of miklum hraða.“

Í samtali sínu um úthaldið hlæja félagarnir að þeim tíma sem þeir þurftu stera í tengslum við meðferðir sínar. „Það voru skemmtileg tímabilin sem við vorum á sterum“ Halli nefnir að hann hafi átt mun auðveldara með að taka ákvarðanir um kaup eins og föt og tölvur. „Þá fer maður og kaupir sér nýjan bíl“ bætir Elli við en það er algengt að fólk verði ört og hvatvíst við slíka lyfjagjöf. „Svo er það annað og það er skapið, ég varaði alltaf konuna við“ segir Halli þegar hann ræðir um sterana og þau áhrif sem sterarnir höfðu á þá. Í dag er hægt að hlæja og það er eitthvað sem þeir eru sammála um að skipti miklu máli, að hlæja.

Sækir saumanámskeið til að örva fínhreyfingarnar

Elli ákvað sem fyrr segir að nýta sem mest af þjónustunni í Ljósinu og meðal annars hefur hann setið saumanámskeið. Hann hefur meðal annars saumað sér snyrtibuddu og lagað gallabuxur en mikla lukku hafa bóntuskan. „Það er ekkert sjálfgefið að geta þrætt nál“ en doði í puttum er algengur fylgikvilli meðferða.

Hann segist sko í upphafi ekki ætlað að prufa svona margt en þegar þjálfararnir sögðu hann ekki tilbúin í hefðbundna þjálfun og bentu honum á slökun þá ákvað hann að slá. Það hefur svo virkað virkilega vel. Mataræðið hefur einnig breyst mikið og þar hefur grænmetismataræðið haft mikil áhrif. Elli og Halli eru sammála um það að hádegismaturinn sé geggjaður og nefnir Elli meðal annars að eldhúsið í Ljósinu sé eitt það besta í bænum.

Karlar með allskonar krabbamein

Í hópnum sem Elli og Halli sækja eru karlmenn sem eru 46 ára og eldri en þegar Viktoría spyr hvað það er þeir gera þá hlæja okkar menn sposkir og segja að það sé leyndarmál. Þeir deila hins vegar að þarna sé góður hópur manna sem hittist og ræða málin, lögð sé fyrir spurning af Matta Ósvald, og til verði líflegar umræður sem skilja eitthvað eftir. „Maður getur speglað sig aðeins í öðrum mönnum og hvað það er sem skiptir okkur máli. Þetta vekur mann til umhugsunar“.

Gott fyrir fjölskylduna að vita að Ljósið sé til staðar

Krabbamein hefur áhrif á alla fjölskylduna og þar eru Elli og Halli sammála. Í Halla tilfelli þá hélt eiginkona hans fyrst að hann væri að grínast þegar hann sagði henni að hann hafi greinst með æxli. „Ég sé það sérstaklega á konunni. Hún er að hafa áhyggjur af mér í tíma og ótíma“. „Maður er búinn að vera eins og í bómull“ segir Elli og lýsir hvernig hann hafi upplifað kærleik frá Ljósinu, vinnunni og fleiri stöðum þegar hann lýsir að fjölskyldan sé núna kannski farin að hafa minni áhyggjur.

Þegar Viktoría ræðir mikilvægi Ljóssins gagnvart fjölskyldunni þá er greinilegt að félagarnir eru sammála um að það sé gott fyrir fjölskylduna að vita að Ljósið sé til staðar. „Það skiptir öllu máli hvernig er tekið á móti þér og hugsað um þig“ lýsir Halli. „Það er eitthvað sem þau eru með“ segir Elli þegar hann talar um starfsfólk Ljóssins. „Það er gott að vera þarna eins og við höfum sagt“ segir Halli.

„Það þýðir ekkert að vera bara heima að horfa á Netflix“

„Bara mæta í Ljósið. Það heldur utanum mann og passar upp á mann. Það er örugglega vont að vera einn heima. “ segir Elli og lýsir hvað það er dásamlegt hvað er haldið utan um mann. „Það er líka að vera vera virkur. Það þýðir ekkert að vera bara heima að horfa á Netflix“.

Vera virkur og opinn. Hafa nóg fyrir stafni. Lífið er ekki búið þegar maður greinist með krabbamein, það byrjar bara nýtt skeið.

Félagarnir ásamt Matta Ósvald á góðum degi í vor