Í ár fáum við margar magnaðar sögur þjónustuþega sem deila sinni upplifun af því að greinast með krabbamein og endurhæfingunni sem þau hafa þegið í Ljósinu. Við fjöllum sérstaklega um upplifun þeirra sem eru af erlendu bergi brotin en í Ljósinu er sérstakur hópur fyrir þau sem ekki hafa íslensku að móðurmáli.
Hlaðvarpið okkar er á sínum stað í blaðinu en í ár fengum við Viktoríu Hermannsdóttur, fjölmiðlakonu, til liðs við okkur í spyrilssætið. Hún ræðir við félagana Ella og Halla sem kynntust í Ljósinu en einnig stílistann Huldu Halldóru sem greindist með brjóstakrabbamein í fyrra og hefur valið að vera jákvæð og bjartsýn í gegnum sitt ferli.
Að vanda setja fagaðilar Ljóssins mark sitt á blaðið en við segjum meðal annars frá ráðstefnu sem þjálfarar sóttu í Amsterdam, fjöllum um nýjungar í handverki og ræðum um taugakerfið. Við fáum einnig góðan viðmælanda af Landspítala til að veita okkur innsýn í hver staðan er á krabbameinsdeild Landspítalans.
Við þökkum kærlega öllum þeim sem lögðu hönd á plóg við vinnslu blaðsins.
Við vonum að þið njótið Ljósablaðsins í ár.