Takk!

Maður getur ekki annað en fyllst auðmýkt og stolti þegar maður sér hve mikinn stuðning Ljósið fær í samfélaginu. Allt það jákvæða umtal sem Ljósið fær og sá fjárhagslegi stuðningur sem Ljósinu berst frá velunnurum er ómetanlegur. Þessi stuðningur gerir það að verkum að mögulegt er að halda úti starfsemi án þess að skjólstæðingar þurfi að greiða fyrir almenna þjónustu. Sem formaður Ljóssins er ég innilega þakklátur fyrir hvert einasta framlag, hvort sem það kemur frá einstaklingum, félagasamtökum eða fyrirtækjum. Takk!

Síðan að ég fyrst kynntist starfsemi Ljóssins árið 2017 hef ég orðið vitni af því hve miklu máli starfsemin skiptir í þeim fjölbreyttu aðstæðum sem skjólstæðingar standa frammi fyrir. Í hverjum mánuði eru um 600 manns í virkri þjónustu í Ljósinu og munu komur í endurhæfingu fara yfir 30 þúsund á þessu ári. Á bakvið alla þessa einstaklinga eru fjölskyldur, vinir og aðrir aðstandendur og snertir því starfsemi Ljóssins ótal marga í samfélaginu á hverju ári. Fyrir hönd þessa stóra hóps segi ég takk!

Hjá Ljósinu starfar öflugur hópur með sérþekkingu á endurhæfingu krabbameinsgreindra. Sá hópur hefur menntað sig og sérhæft í að sinna krabbameinsgreindum og leggur sig fram við að sinna skjólstæðingum sífellt betur. Starfsmannahópurinn er fjölbreyttur, enda þarf fjölbreytta þekkingu til að geta sinn líkamlegum, andlegum og félagslegum endurhæfingarþörfum þessa fjölbreytta hóps sem sækir þjónustu í Ljósið. Til ykkar, starfsfólks Ljóssins, segi ég takk!

Fjöldi sjálfboðaliða hefur í gegnum tíðina aðstoðað Ljósið og varið sínum eigin frítíma í að létta undir með starfinu. Sjálfboðaliðar hafa m.a. komið að viðburðum, söfnunum, þjónustu við skjólstæðinga, rekstri, þátttöku í stjórnarstörfum og ýmsu fleiru. Það er ekki sjálfgefið að einstaklingar gefi krafta sína og vinnu til að styðja svo vel við starfsemi Ljóssins. Takk til ykkar!

Á hverju ári berast fjöldi styrkja í gegnum Ljósavinaverkefni, Reykjavíkurmaraþon og önnur regluleg styrktarverkefni sem Ljósið stendur fyrir. Í Reykjavíkurmaraþoni hlupu t.a.m. yfir 290 manns fyrir Ljósið og var fjöldi áheita vegna þessara hlaupara samtals 4147. En auk þess koma fjöldi styrkja í gegnum verkefni sem einstaklingar sem tengjast Ljósinu eiga frumkvæði af. Má þar m.a. nefna verkefni eins og Nú! er góður tími, Andartak, 70 Esjur, Gengið í Ljósið, Sólstöðumót Lauga, Pólýfónfélagið, Körfuknattleiksdeild Álftaness og landslið kvenna í blaki og ýmis fleiri framúrskarandi verkefni. Þið öll sem haft lagt tíma ykkar og orku í að styðja Ljósið með ykkar eigin hætti, takk!

Ljósið hefur jafnframt notið ómetanlegs stuðnings Oddfellowa, Frímúrara, Lions, Kiwanishreyfingarinnar og annarra félaga í gegnum tíðina, auk þessa sem fjöldi fyrirtækja hefur staðið að verkefnum til að styðja við Ljósið. Ykkar stuðningur er ómetanlegur, takk!

En þrátt fyrir allan þennan stuðning er rekstur Ljóssins mjög þröngur. Í ljósi gríðarlegar fjölgunar þjónustuþega undanfarin ár, auk þeirrar fjölgunar sem er fyrirsjáanleg á næstum árum, er stækkun starfsmannahóps og aukin sérþekking nauðsynleg. Auk þess ræður húsnæði Ljóssins við Langholtsveg ekki lengur við þann fjölda sem sækir þjónustu í Ljósið og er mikilvægt að finna framtíðarlausn varðandi húsakost Ljóssins. Opinberir aðilar koma að rekstri Ljóssins í gegnum samning við Sjúkratryggingar Íslands. Samningurinn rennur út nú um áramótin og er unnið að bindum við vonir ná áframhaldandi samningi og að fjármagn frá hinu opinbera verði í samræmi við þann fjölda sem sækir þjónustu í Ljósið. Annars er hreinlega ekki hægt að halda úti þessari þjónustu. Við erum ákaflega þakklát fyrir samninginn, en nú þarf að vinna að framtíðarlausn.

Að lokum vil ég segja að það hefur verið heiður að koma að starfinu og sjá hve Ljósið snertir marga. Við verðum öll saman að tryggja tilvist og framvindu Ljóssins. Og frá mér sjálfum segi ég vel gert og takk!

Brynjólfur Eyjólfsson

Formaður stjórnar Ljóssins