Flökkutaugin (e. Vagus nerve) er hluti af ósjálfráða taugakerfinu, hún er heilataug nr. 10 og ber flökkunafnið með rentu því hún kemur víða við sögu og hefur áhrif á helstu líffæri líkamans, en það eru þó bara 20% af hlutverki taugarinnar. Hún er um það bil 80% skyntaug sem þýðir að hennar helsta hlutverk er að senda upplýsingar frá líffærum aftur til heilans. Fyrir okkur er því eftirsóknarvert að stilla okkur inn á skynkerfi líkamans, þekkja merkin og byggja smám saman upp tón í flökkutauginni til að geta í auknum mæli valið viðbrögð okkar í stað þess að vera á valdi ósjálfráðra varnarviðbragða.
Kenningin um Flökkutaugina, þróuð af Dr. Stephen Porges, hjálpar okkur að öðlast dýpri skilning á þessum hluta taugakerfisins. Í kenningunni er fjallað um þrjá hluta Flökkutaugarinnar sem hafa þróast með okkur í árþúsundir með það að markmiði að vernda okkur gegn hættu. Hver hluti sér um að viðhalda jafnvægi líkamans en þegar varnarkerfið virkjast hefur hver hluti einkennandi hugsanir, tilfinningar og líkamleg viðbrögð sem hafa áhrif á hvort við upplifum og bregðumst við heiminum í kringum okkur sem vinveittum, á móti okkur eða algjörlega yfirþyrmandi.
1. Dorsal vagal hlutinn: Elsti hluti taugarinnar. Frost viðbragð virkjast við mikið álag í langan tíma.
- Hugsanir: “Ég get ekki meira”
- Tilfinningar: Einkennast af hjálparleysi og ótta.
- Líkami: Þungur, flöt raddbeiting og svipbrigði.
2. Sympatíski hlutinn: Þróaðist næst og kemur aukinni orku í kerfið okkar og stuðlar að “berjast eða flýja” viðbragðinu. Undirbýr okkur fyrir að bregðast við streitu eða mögulegri hættu.
- Hugsanir: “Ég þarf” eða “ég verð”.
- Tilfinningar: Pirringur, ótti, biturð.
- Líkami: Spenna, eirðaleysi, aukinn hjartsláttur, hraðari andadráttur.
3. Ventral Vagal hlutinn: Er þróaðasti hluti ósjálfráða taugakerfisins og er virkur þegar við upplifum okkur nógu örugg. Hann gerir okkur fær um að tengjast öðrum (e. Social engagement system), slaka á og upplifa öryggi og vellíðan.
- Hugur: Skýr, vakandi, skapandi
- Tilfinningar: Að tilheyra, þakklæti, samhyggð.
- Líkami: tenging við eigin líkama, opin, létt, sterk og mjúk.
Þessir þrír hlutar ósjálfráða taugakerfisins eru alltaf að störfum og við erum stöðugt að færast á milli þeirra í daglegu lífi.
Markmiðið okkar er ekki að vera öllum stundum í ventral hlutanum, þeim þroskaðasta, heldur frekar að verja auknum tíma þar með því að þekkja við hvaða aðstæður varnakerfin okkar virkjast og byggja upp leiðir til að finna ró í taugakerfinu okkar. Því oftar sem við æfum þetta meðvitað byggjum við upp sveigjanleika og seiglu í taugakerfinu. Með akkeri í ventral hluta taugakerfisins erum við fær um að tengjast okkur sjálfum og öðrum, að skapa, upplifa að lífið sé okkur í hag og starfsemi líkamans er við kjöraðstæður fyrir uppbyggingu og endurheimt.