„Það er gott að hafa Ljósið sem akkeri“

Höfundur

Ragna Gestsdóttir

Ljósmyndari

Aldís Pálsdóttir

Segja má að parið Magnea Ólafsdóttir og Hákon Jónsson hafi verið vel undirbúin og þekkt vel til Ljóssins þegar Magnea greindist með brjóstakrabbamein fyrr á þessu ári. Fyrir greininguna var Hákon í samstarfi við Ljósið í gegnum vinnu sína og maður móður Magneu nýtti sér þjónustu Ljóssins í sínum veikindum. Eftir greiningu Magneu hafa þau Hákon bæði nýtt sér þjónustu Ljóssins og hæla starfseminni mjög.

Ljósmyndarinn Aldís Pálsdóttir fylgdi Magneu eftir í einn dag þar sem hún fangaði síðasta dag Magneu í meðferðum. Í kjölfarið fagnaði hún með kærum vinum.

Hákon hefur staðið þétt við bakið á Magneu í ferlinu.

Magnea leitaði til læknis á heilsugæslu eftir að hafa fundið bólginn eitil undir holhöndinni. Læknirinn þreifaði brjóstið, fann ekkert æxli, en sagðist hafa fyrir reglu að senda konur í myndatöku ef líkur væru á að eitthvað væri að hrjá þær. „Mér var sagt að æxlið snertist ekki eins og illkynja. Það væri hart eins og poppkorn en meinið fannst ekki í brjóstinu með þreyfingu,“ segir Magnea, sem er 45 ára og hafði starfað sem flugfreyja í 18 ár þegar hún greindist.

„Ég veit ekki hvaða dagur telur, dagurinn sem ég fékk símtalið eða dagurinn sem ég fór í fyrsta viðtalið, formleg greining er 3. apríl þegar ég vissi hvað var framundan. Þeir hringja alltaf á hádegi á föstudegi með niðurstöðurnar og ég var þá stödd í vinnuferð í Kaupmannahöfn, ein á hótelherbergi. Ég var svo ótrúlega heppin að góð vinkona mín var stödd á vinnufundi í Kaupmannahöfn þegar ég fékk símtalið,“ segir Magnea.

Magnea ásamt móður sinni sem kynnst hafði störfum Ljóssins í gegnum mann sinn

Segist hún ekki hafa getað haft betri manneskju til að hringja í og segir engla hafa vakað yfir sér þennan dag sem hún er þakklát fyrir. Vinkonan kom til hennar og var síðan farþegi með vinnuflugi Magneu heim. „Einhvern veginn fórum við Hákon í gegnum helgina, svo kom mánudagur og við hittum lækni. Þá eiginlega leið mér miklu betur, vissi að batahorfur voru góðar, meinið var komið í eitil en fannst ekki í brjóstinu við þreifingu. Þannig að það var lán í óláni að það var komið í eitil sem ég fann fyrir þarna í mars. Ég fór í reglubundnu myndatökuna í nóvember 2022 og þá sást meinið. Þetta hefur litið vel út frá byrjun, við höfum alltaf fengið góðar fréttir.“

Verkefnið hófst sem staðið hefur yfir síðustu mánuði og mun halda áfram næstu árin, Magnea fór í lyfjameðferð, skurð og geisla. Hún kláraði síðustu lyfjagjöfina þann 1. ágúst, skurð 1. september og geislameðferð mun ljúka í byrjun nóvember. „Þegar lyfjagjöfin var hálfnuð fór ég aftur í myndatöku, þá var meinið horfið sem var ótrúlega gleðilegt. Við vissum að það væri alltaf möguleiki að eitthvað væri eftir, en þarna sáum að lyfin voru að hafa áhrif, skurðurinn kom líka vel út. Ég var spurð fyrir stuttu: „Ferðu svo bara á Reykjalund eftir geislana?“ sem er eðlileg spurning. Ég svaraði að hvergi annars staðar en í Ljósinu er boðið upp á jafn viðamikla endurhæfingu fyrir krabbameinsgreinda,“ segir Magnea sem var í þriðja tímanum hjá Guðnýju iðjuþjálfa á undan viðtalinu.

Aldís Pálsdóttir fylgdi Magneu eftir í síðustu geislameðferðina og þarmeð er meðferðum lokið hjá Magneu.

Það fylgja því miklar tilfinningar að klára meðferð

Þegar lyfjagjöfin var hálfnuð fór ég aftur í myndatöku, þá var meinið horfið sem var ótrúlega gleðilegt

Réttur bæklingur með mynd af móður hennar og manni hennar

Parið heyrði fyrst af Ljósinu árið 2019 þegar Bjarni maður móður Magneu greindist með blöðruhálskrabbamein og leitaði hann mikið í Ljósið í sinni endurhæfingu. Bjarni og kona hans tóku einnig þátt í herferð fyrir Ljósið og sátu fyrir framan á bæklingi herferðarinnar.

„Þegar Magnea greindist þá var henni réttur bæklingur með mynd af þeim framan á og það var pínu undarleg upplifun. Ég kom aldrei í Ljósið á þessum tíma en vissi hvers eðlis starfsemin er. Bjarni var líka svo ánægður hér og mjög aktívur, nýtti sér þjónustuna og var í öllum klúbbum og fannst Ljósið ótrúlegur stuðningur. Stundum kom hann bara og fékk sér kaffi,“ segir Hákon.

Samstarfið við Ljósið breyttist eftir greiningu Magneu

Árið 2021 skipti Hákon um vinnu eftir að hafa unnið á sama stað í nær áratug, í nýja starfinu hjá Sidekick kynntist hann starfsemi Ljóssins. „Ég var að vinna þar í vöruafhendingu (e. Product Delivery) í hópi sem er mikið að vinna með lyfjafyrirtækjum erlendis, meðal annars fyrirtækjum sem framleiða krabbameinslyf. Hópurinn sem ég starfaði í var að hjálpa fólki í krabbameinsmeðferð að komast betur í gegnum hana. Sidekick appið var fylgihlutur fyrir þá, sem fengu lyf ávísuð í pilluformi, til að kenna fólki að bregðast við aukaverkunum, minna á lyfjatöku og hvetja fólk til eins mikillar hreyfingar og hægt er á þeim tíma sem það er í meðferðinni. Þá var einnig efni sem studdi fólk í að nærast hollt og einnig fræðsluefni um þau veikindi sem viðkomandi þjáðist af,“ segir Hákon.

Í starfinu kynntist Hákon læknum og hjúkrunarfræðingum og einnig fólki frá Ljósinu, og segist hann þannig hafa kynnst starfsemi Ljóssins á annan hátt en flestir kynnast henni. Daginn sem Magnea greindist tók hann 180 gráðu beygju að eigin sögn í starf hjá Veitum, þar sem hann vinnur í stórum verkefnum hvað varðar innleiðingu lagna á höfuðborgarsvæðinu.

„Eftir að Magnea greindist þá hringdi ég í Ernu [Magnúsdóttir, framkvæmdastýru] rétt fyrir aðalfund Ljóssins og sagði að ef henni vantaði mann í stjórnina þá væri ég tilbúinn að bjóða mig fram. Hún þáði það og ég sit í stjórn Ljóssins til næstu tveggja ára hið minnsta og það eru verðug verkefni framundan, sérstaklega hvað varðar húsnæði. Það verður stórt verkefni að finna nýtt húsnæði eða staðsetningu fyrir húsnæði, það er enginn lognmolla hjá stjórninni,“ segir Hákon.

Hákon kynntist starfi Ljóssins í gegnum starf sitt hjá Sidekick Health áður en Magnea greindist

„Erna og þau í Ljósinu eru alveg með á hreinu hvernig nýja húsnæðið verður, hér verður enginn í sloppum, þetta verður heimilislegt, sófasett, litir, viður, blóm, þetta verður aldrei eins og stofnun. Það væri óskandi að Ljósið fengi stærra húsnæði, stærra mötuneyti þannig að maður geti komið inn sem gestur og keypt sér mat í stað þess að taka sæti frá þeim sem hér eru í þjónustu. Ég hef sagt að væri frábært að geta verslað mat frá Ljósinu út í búð því það er frábær matur hérna.“

Einstaklingar geta styrkt Ljósið með ýmsum hætti, meðal annars með því að gerast Ljósavinir og eru Magnea og Hákon það bæði. „Ég sagði upp áskrift að Hús og Híbýli og gerðist Ljósavinur í staðinn. Ég borga 1.500 krónur á mánuði. Margir vina minna gerðust Ljósavinir eftir að ég greindist,“ segir Magnea.

Dæturnar hafa ekki spurt mikið um veikindin

Magnea og Hákon eiga saman sjö ára dóttur, og Hákon á 18 ára dóttur frá fyrra sambandi. Yngri dóttirin hefur verið á barnanámskeiði hjá Ljósinu og segir Hákon að dótturinni líki námskeiðið vel, þar sé farið í gegnum hvernig er að vera barn krabbameinssjúklings án þess að ræða það berum orðum.

„Hún er alltaf voða þreytt eftir þessa daga og þegar við spyrjum hana hvað þau hafi verið að gera segist hún hafa verið í leik. Og þau eru bara í leik þar sem unnið er með sjálfstraust og fleira án þess þau átti sig á. Ég held þau séu lítið að tala um krabbamein, hún talar ekkert um það heima hjá sér og sjö ára barn er bara almennt í sínu. Hún hefur verið sterk og dugleg í gegnum ferlið, og að því að okkur Hákoni finnst ekki spurt eða pælt mikið, við höfum reynt að hafa fjölskyldulífið eins eðlilegt og hægt er,“ segir Magnea.

Hún segist ekki hafa notað orðið krabbamein strax. „Svo kom sá tími, þá sagði ég að veikindin mín hétu krabbamein og fór að segja henni frá fólkinu sem er í kringum okkur og hún þekkir sem hafa fengið krabbamein og eru á lífi. Og sagði henni að það deyi ekki allir sem fá krabbamein.“ Magnea segir dótturina einnig vara við að mamma sé alltaf heima núna. „Þannig að það er pínu breytt mynstur, en ég held að flugbörnum þyki ekki slæmt að hafa mömmu sína heima. Ég á góða fjölskyldu og vinkonur sem hafa hjálpað. Ég upplifi það hvað fólk er upp til hópa gott, hvað er mikil góðvild hjá fólki, það hefur verið dýrmætt.“

Þau segja dóttur Hákons ekki hafa sóst eftir að fá þjónustu í Ljósinu. „Samt er mikið um krabbamein í móðurætt hennar. Hún hefur ekki fundið þörf hjá sér að fara í einhverja þjónustu hjá Ljósinu og það er hennar að ákveða,“ segir Hákon.

Ég upplifi það hvað fólk er upp til hópa gott, hvað er mikil góðvild hjá fólki, það hefur verið dýrmætt

Gott að hafa Ljósið sem akkeri

Aðspurð um hvort það hafi verið mikið áfall að greinast, svarar Magnea játandi, enginn blóðtengdur henni hafi fengið krabbamein og það hafi verið gríðarlegt áfall að vita ekki hvað væri framundan. Hún segist hins vegar aldrei hafa fengið hugsunina: „af hverju ég?“

„Það fá allir fullt af alls konar verkefnum í lífinu sem þeir þurfa að vinna með út lífið og þetta er verkefni sem mér var falið og það er bara að tækla það. Þeir sem fá krabbamein og fara í gegnum ferlið eru oft kallaðir hetjur og auðvitað er maður það, en þetta er auka styrkur sem maður fær og það er ekki val um annað þegar maður er með maka, börn og fjölskyldu,“ segir Magnea, sem segir fjölskylduna hafa verið gripna vel af ættingjum og vinum, og hugsað vel um þau í öllu ferlinu.

Magnea skráði sig á vef Ljóssins sama dag og hún fékk greininguna. Daginn eftir var hringt í hana og henni gefinn tími hjá iðjuþjálfa. „Nú ert þú að byrja í uppbyggingu,“ sagði hann, og þá var ég komin með annað verkefni. Og ég er komin með verkefni fram yfir áramót. Og það er þægilegt að vita það líka.“

„Endurhæfingin byrjar sama dag og þú greinist með krabbamein. Hérna í Ljósinu kemur þú beint inn í prógramm sem er tilbúið fyrir þig, það er ekkert sem heitir: „þú klárar þetta og svo eftir sex mánuði hefst endurhæfing“, það virkar ekki þannig. Sem þýðir að þú færð aldrei að fara á þitt lægsta stig, heldur er lagt upp með að þú haldir í þinn styrk eins og hægt er meðan þú ferð í gegnum þennan erfiða tíma. Og ég efast ekki um að það hefur verið gríðarlega gott fyrir Magneu að vera hér, þiggja stuðning og vera í líkamsræktinni. Þau í Ljósinu segja að svona prógramm gefi bestu raunina,“ segir Hákon.

Hann bætir við að í mörgum tilvikum detti fólk af vinnumarkaði við greininguna og þannig verði félagslegi þátturinn minni en hann var. „Þá er gott að eiga Ljósið að sem verkefni, hitta fólk og borða mat með þeim sem eru að ganga í gegnum það sama og þú, tala við þá sem eru á svipuðum stað og þú í meðferð, fá þessi svör, læknir segir þér margt, en hér ertu með einstakling sem hefur gengið í gegnum sama ferli aðeins á undan þér og getur sagt frá því og þú tengt við,“ segir Hákon. „Það getur líka verið erfitt fyrir marga að fara út úr húsi sem eru veikir. Það er gott að hafa Ljósið sem akkeri, geta komið hingað og gera það sem þig langar til. Þú ert ekki hér fyrir neinn annan.“

Magnea segir að þar sem hún hafi verið í vaktavinnu til fjölda ára og oft í fríi yfir daginn búi hún vel að því að eiga vinkonur sem vinna einnig vaktavinnu og geti þannig hitt þær á daginn. „Ég held að það sé erfiðara fyrir þá sem vinna 8-4 að vera allt í einu kippt út af vinnumarkaði. Það sem ég vissi ekki áður er hvað starfar mikið af fagfólki hér í Ljósinu, sjúkraþjálfarar, íþróttafræðingar, iðjuþjálfar, þetta eru sérfræðingar sem eru hér í vinnu. Starfið er svo faglegt hér og hjálpar mörgum og kemur þeim fyrr út á vinnumarkað. Ef að einstaklingar fengju ekki andlega og líkamlega hjálp þá gætu þeir verið lengur sjúklingar og jafnvel orðið öryrkjar. Það kostar peninga að hafa fólk í veikindaleyfi.“

Hákon segist sannfærður um að staða margra krabbameinsveikra og endurhæfing þeirra væri önnur ef Ljóssins nyti ekki við. Krabbameinsfélagið og Kraftur séu vissulega til staðar, sem er gott, en þeirra hugmyndafræði og verkefni séu að hluta til önnur en Ljóssins. „Það er ekkert annað þarna úti sem sér um endurhæfingu í þessum 360 gráðum, það er ekkert sem heldur utan um meðferðina frá því þú greinist þar til meðferð þinni lýkur,“ segir Hákon og spyr hvar megi finna starfsemi líka Ljósinu: „Ljósið er að gera frábæra hluti, það eru endurhæfingarmiðstöðvar og stuðningsmiðstöðvar vítt og breitt um heiminn, en þessi blanda af endurhæfingu á einum stað er algjörlega einstök.“ „Hvað gerir fólk alls staðar í heiminum?“ spyr Magnea.

„Það má heldur ekki gleyma að hér tekur þú aldrei upp veskið sem er svo sérstakt, það er eitthvað sem ég er ekki viss um að allir viti, þú tekur ekki upp veskið þegar þú ert í þjónustu í Ljósinu ekki nema þegar kemur að dýrum efniskostnaði. Maður borgar fyrir nuddið, efniskostnað í handverki og þá eins lítið og hægt er, aðstandandi greiðir 5.000 krónur fyrir aðstandendanámskeiðin, sem er eðlilegt þar sem þau eru líka haldin utan vinnutíma, en barnanámskeiðin eru án endurgjalds.“

Hvað er svo gott sem góðra vina fundur? Samstarfskonur og vinkonur Magneu hittust, fögnuðu meðferðarlokum og lífinu saman. Aldís ljósmyndari fylgid Magneu og Hákoni inn í kvöldið þar sem fagnað var meðferðarlokum með góðum vinum.

Hvetja alla sem þurfa að koma í Ljósið

Hákon segir að þeim Magneu hafi liðið vel frá fyrsta degi í Ljósinu og hvetur hann alla sem þurfa að koma í Ljósið, bæði krabbameinsgreinda og aðstandendur en sjálfur fór hann á aðstandendanámskeið sem hann hrósar mjög. „Mér stendur til boða að fara í viðtöl hjá sálfræðingum og félagsfræðingum, og það getur vel verið að ég þiggi það seinna, en í dag læt ég það frekar til þeirra sem eru veikir eða þurfa virklega á því að halda. Þetta hefur gengið það vel hjá okkur, meðferð Magneu hefur gengið vel og stuðningurinn sem við höfum fengið frá fjölskyldu og vinum er mikill, þannig að ég hef ekki misst úr vinnu eða bugast af álagi. Ef það hefði gerst þá hefði ég skráð mig strax í viðtal,“ segir Hákon.

Magnea bætir við að hún eigi bókaðan tíma hjá sálfræðingi í Ljósinu „Og ég finn að ég þarf á honum að halda. Það er víst algengt á þessum tíma þegar meðferðarferlið er að verða búið að það komi skrýtnar tilfinningar.“ „Það er bara eðlilegt, þú ferð í svona hlutverk og verður sjúklingur, svo þegar maður hættir að vera sjúklingur og er að koma á endastöð þá getur það verið pínu tragedía að ljúka verkefninu, þó maður sé ánægður,“ segir Hákon. „Viðkomandi klárar meðferðina en er ekki orðinn nógu sterkur til að fara í vinnu, það kemur annað tímabil svipað að lengd áður en þú getur farið að vinna. Við eigum þennan kafla eftir og upplifa hvernig hann verður.“

Neikvæðu sögurnar meira áberandi

Magnea rifjar upp að læknirinn hennar hafi sagt þeim Hákoni að margir og sérstaklega konur þoli ekki október út af bleika október. „Vegna þess að það er krabbamein um allt. Mér finnst þetta aðallega vera vitundarvakning til að fá konur til að þreifa sig og mæta í myndatöku. Í ágúst fyrir maraþonið þá var í hverjum einasta fréttatíma og öllum blöðum neikvæðar sögur, viðtal við ekkju eða ekkil sem hafði misst og var að hlaupa fyrir eitthvað málefni. Ég sagði við vinkonu mína sem er læknir: „Af hverju við getum ekki fengið að heyra góðu sögurnar, góðu sögurnar um Ljósið sem hefur hjálpað svo mörgum.“

„Þetta er bara eins og þegar þú kaupir þér bíl þá sérðu ekkert nema samskonar bíla. Svo lendir þú í að verða veikur, þá veistu af öllu um veikindin, lest alla pistlana og sögurnar um þá sem glíma við svipuð veikindi,“ segir Hákon.

Magnea segir að fyrsta hugsunin við að fá símtal um að maður sé greindur með krabbamein sé: „Hvenær ætli ég deyi?“ enda neikvæðu sögurnar oftar sterkari í umræðunni. "Svo fær maður að heyra að batalíkur séu 90%. Ég fann líka mikinn styrk við að hugsa til þeirra flugfreyja sem hafa greinst með brjóstakrabbamein, sigrast á því og snúið aftur til vinnu. En ferlið er ekki búið þó viðkomandi sigrist á krabbameininu, ég heyrði að helmingur þeirra sem greinast með krabbamein þarf að eiga við líkamlega eða andlega kvilla eftir á.“

Hvenær ætli ég deyi?

Lottó með lífið að mæta ekki í skoðun

Magnea segir ferlið í gegnum heilbrigðiskerfið hafa verið gott og aldrei brugðist henni, hún hafi aldrei þurft að sækjast eftir neinu og allt hafi verið bókað fyrir hana. „Við eigum mikið af færu heilbrigðisstarfsfólki og ég tel að með tilkomu brjóstamiðstöðvar árið 2019 hafi orðið mikil breyting, þú ferð á einn stað til krabbameinslæknis, skurðlæknis og í sprautur.“ Hákon er sammála því að ferlið sé mjög skilvirkt. „Það sem kom okkur mest á óvart var hvað þurfti oft að taka upp veskið á spítalanum. Maður hugsar af hverju er hún að borga hér til að fá það endurgreitt annars staðar frá. Það er svolítið sérstakt.“

Við ræðum mætingu kvenna í brjóstaskimun, en í viðtali við Ólöfu Kristjönu Bjarnadóttur sérfræðilækni í krabbameinslækningum á Landspítala í Ljósablaðinu í fyrra kom fram að mæting er undir 60% sem er alltof lág og léleg þátttaka.

„Ég held að í einhverjum tilvikum sé þetta hræðslan við að eitthvað sé að, eins og ég á afmæli í apríl og ég hummaði skoðunina af mér fram í nóvember. Að það skuli bara ekki vera það fyrsta sem maður gerir að panta tíma þegar maður fær miðann um skoðun. Það er einnig hugsunarháttur hjá konum sem komnar eru á vissan aldur hvenær þær fái krabbamein af því það er svo algengt. En ef þú færð krabbamein þá viltu fá greininguna á frumstigi. Konur halda margar að myndataka í skimun sem sýnir ekkert þýði að þær séu öruggar næstu tvö ár. Þekktu líkamann þinn, þreifaðu á brjóstunum, ef eitlar stækka út af einhverju eins og þú færð flensu og það gengur ekki til baka, farðu og láttu skoða þig,“ segir Magnea.

„Þetta er pínu eins og að spila lottó með lífið að fara ekki í skoðun eða fresta henni það eru dæmi um að það finnist ekkert á myndum og þremur mánuðum seinna þá ertu kominn með stórt mein. Ef þú hummar það af þér í nokkra mánuði þá þarf það ekki að enda vel. Því fyrr sem þú greinist því betri líkur eru á að bregðast við því,“ segir Hákon. Hann bætir við að tækninni fleygir fram og gervigreind er að fara að nýtast við úrlestur á myndum og mun þannig geta séð hluti á myndum sem mannsaugað greinir ekki. „Gervigreindin byggir á gagnasafni úr milljónum mynda sem tryggir að betri úrlestur og greining á frumstigum verður algengari. Myndatökur og úrlestur mun verða betri og það verður spennandi að sjá það. Hugsaðu þér líka, þú ert í 100 manna veislu og það má búast við að 20-30 manns í veislunni muni greinast á einhverjum tímapunkti með krabbamein. Það er pínu ógnvænleg tilhugsun. Þá er gott að hafa svona stað eins og Ljósið, þar sem fólki er hjálpað við að eiga við vandamálin, ef þú veigrar þér við að fara til sálfræðings eða fjölskylduráðgjafa vegna kostnaðar þá eru þeir hér til að hjálpa og þú þarft ekki einu sinni að greiða fyrir það. Það er ótrúlega mikilvægt að fólk átti sig á að það er allt til staðar hérna. Það er engin stéttaskipting í Ljósinu, hér kemur enginn inn og fær betri þjónustu af því hann er með stærra og þykkara veski eða gaf meira í söfnunina. Hér eru allir á sama level og með sömu þjónustu til að ná bata.“

Hvað er framundan?

Eins og áður hefur komið fram þá er Magnea búin að starfa sem flugfreyja í 18 ár. Saknar hún starfsins sem hún elskar, en ein þeirra spurninga sem hún stendur frammi fyrir er hvenær hún hefur orku til að snúa aftur til vinnu.

„Þetta eru skrítnir tímar að vera að klára ferlið og hvað tekur þá við. Endurgreiningarkvíði og þessar hugsanir sem allir sem fá krabbamein ganga í gegnum. Ég hef unnið að og sett fókus á ákveðið verkefni og svo þegar það er búið þá þarf ég að huga að sjálfri mér. Það gefur manni vonina að ég er meðvituð um að ég er að gera allt sem ég get, ég gat ekki valið hvaða krabbamein ég fékk, en ég get valið hvað ég geri til að ná bata,“ segir Magnea.

Vikuna eftir að Magnea greindist átti hún að vera á námskeiði þar sem stendur til að samnýta innanlands- og millilandaflota og ætlaði vinna að hluta innanlands og segist hafa séð fyrir sér að eiga styttri vinnudaga og geta verið meira heima, þó vinnudagarnir yrðu fleiri. „Það er alls konar sem ég er að hugsa öðruvísi þó mér þyki ofsalega gaman í vinnunni minni og hafi kynnst yndislegu fólki. Ég stefndi á að læra fótaaðgerðafræði áður en ég greindist og langar að halda áfram með það nám, ég er með stúdentspróf af nýmálabraut og þarf að taka 10 áfanga í heilbrigðisfræðum áður en ég get byrjað námið. Ég var búin með fimm og er farin að hugsa að mig langi að klára námið og jafnvel vinna við fótaaðgerðir meðfram fluginu. Svo getur vel verið að ég hitti þig eftir þrjú ár og ég verði komin á fullt í fluginu aftur, það verður bara að koma í ljós,“ segir Magnea. „Þú verður farin að vinna sem fótaaðgerðafræðingur í Ljósinu áður en langt um líður,“ segir Hákon.

Magnea segist eiga Ljósinu mikið að þakka og muni nýta sér þjónustuna betur á komandi mánuðum, eins og líkamsræktina, þar sem hún hefur mætt tvisvar í viku og hyggst mæta oftar. Núna er Magnea á leirnámskeiði og núvitundarnámskeiði.

„Vinkona okkar sem er heimilislæknir talar mikið fyrir núvitund og jákvæðri sálfræði og hvað það gerir mikið fyrir fólk að staldra við og hlusta á hvað er að gerast í kringum þig. Ég held að svo margir haldi að núvitund sé einhver furðuleg útgáfa af jóga eða íhugun, en núvitund getur verið að sitja bara kyrr og aðeins að gleyma sér, þetta geta verið fimm mínútur, tíu mínútur eða klukkutími. Þegar ég var að vinna með þessari vinkonu okkar hjá Sidekick, þá fékk hún alla þar með á hverjum morgni þar sem við settumst inn í heimilislega stofu og hlustuðum á núvitund í tíu mínútur. Það er alveg hægt að mæla með að fólk sinni þessu. Mjög góð hvíld,“ segir Hákon.

Parið ferðaðist mikið fyrir heimsfaraldur og veikindi Magneu „Við skuldum aðeins í ferðalög, við ætlum til Svíþjóðar í desember og Magnea með vinkonum sínum til Tenerife í janúar. Í mars ætlum við saman á skíði til Ítalíu og ég síðan á bjórhátíð í Danmörku í maí, þannig að það er búið að raða upp hlutum til að hlakka til,“ segir Hákon.