Hvað er framundan?
Eins og áður hefur komið fram þá er Magnea búin að starfa sem flugfreyja í 18 ár. Saknar hún starfsins sem hún elskar, en ein þeirra spurninga sem hún stendur frammi fyrir er hvenær hún hefur orku til að snúa aftur til vinnu.
„Þetta eru skrítnir tímar að vera að klára ferlið og hvað tekur þá við. Endurgreiningarkvíði og þessar hugsanir sem allir sem fá krabbamein ganga í gegnum. Ég hef unnið að og sett fókus á ákveðið verkefni og svo þegar það er búið þá þarf ég að huga að sjálfri mér. Það gefur manni vonina að ég er meðvituð um að ég er að gera allt sem ég get, ég gat ekki valið hvaða krabbamein ég fékk, en ég get valið hvað ég geri til að ná bata,“ segir Magnea.
Vikuna eftir að Magnea greindist átti hún að vera á námskeiði þar sem stendur til að samnýta innanlands- og millilandaflota og ætlaði vinna að hluta innanlands og segist hafa séð fyrir sér að eiga styttri vinnudaga og geta verið meira heima, þó vinnudagarnir yrðu fleiri. „Það er alls konar sem ég er að hugsa öðruvísi þó mér þyki ofsalega gaman í vinnunni minni og hafi kynnst yndislegu fólki. Ég stefndi á að læra fótaaðgerðafræði áður en ég greindist og langar að halda áfram með það nám, ég er með stúdentspróf af nýmálabraut og þarf að taka 10 áfanga í heilbrigðisfræðum áður en ég get byrjað námið. Ég var búin með fimm og er farin að hugsa að mig langi að klára námið og jafnvel vinna við fótaaðgerðir meðfram fluginu. Svo getur vel verið að ég hitti þig eftir þrjú ár og ég verði komin á fullt í fluginu aftur, það verður bara að koma í ljós,“ segir Magnea. „Þú verður farin að vinna sem fótaaðgerðafræðingur í Ljósinu áður en langt um líður,“ segir Hákon.
Magnea segist eiga Ljósinu mikið að þakka og muni nýta sér þjónustuna betur á komandi mánuðum, eins og líkamsræktina, þar sem hún hefur mætt tvisvar í viku og hyggst mæta oftar. Núna er Magnea á leirnámskeiði og núvitundarnámskeiði.
„Vinkona okkar sem er heimilislæknir talar mikið fyrir núvitund og jákvæðri sálfræði og hvað það gerir mikið fyrir fólk að staldra við og hlusta á hvað er að gerast í kringum þig. Ég held að svo margir haldi að núvitund sé einhver furðuleg útgáfa af jóga eða íhugun, en núvitund getur verið að sitja bara kyrr og aðeins að gleyma sér, þetta geta verið fimm mínútur, tíu mínútur eða klukkutími. Þegar ég var að vinna með þessari vinkonu okkar hjá Sidekick, þá fékk hún alla þar með á hverjum morgni þar sem við settumst inn í heimilislega stofu og hlustuðum á núvitund í tíu mínútur. Það er alveg hægt að mæla með að fólk sinni þessu. Mjög góð hvíld,“ segir Hákon.