„Við héldum upp á að ég væri ekki að fara að deyja“
„Ljósið er svo mikil vin“
„Það er gott að hafa Ljósið sem akkeri“
Að vingast við taugakerfið með dagbók
Ráðstefna ICPTO Amsterdam 2023
„Ég finn alltaf fyrir opnum faðmi í Ljósinu“
What if none of your friends are Icelandic?
„Það er full vinna að ná upp orku aftur“
„Lykillinn í þessu er að hlæja bara nógu mikið“
Saga iðjuþjálfunar
Handverk sem heilsuefling
Styrktaraðilar
Efnisyfirlit
„Við héldum upp á að ég væri ekki að fara að deyja“
Höfundur
Viktoría Hermannsdóttir
Ljósmyndari
Jón Guðmundsson
Hulda Halldóra Tryggvadóttir, stílisti, hitti Viktoríu Hermannsdóttur í hlaðvarpi Ljósablaðsins á dögunum. Þar ræddi hún reiðarslagið sem dundi yfir þegar hún greindist með krabbamein, endurhæfinguna í Ljósinu og hvernig það er að vera ung kona að fara í gegnum það mikla ferðalag sem krabbameinsgreining er - Hér fyrir neðan má einnig lesa það helsta úr spjalli Viktoríu við Huldu ásamt svipmyndum af Huldu úr lífi og leik.
Hulda Halldóra Tryggvadóttir horfði á krabbameinsgreiningu sína sem verkefni sem hún ætlaði að rústa
Daginn sem reiðarslagið dundi yfir var Hulda að störfum við stíliseringu á tökum fyrir stórfyrirtækið Disney. Þá fékk hún símtalið sem olli því að veröldin hrundi skyndilega við þær fréttir að hún væri komin með brjóstakrabbamein.
Við tóku langir dagar þar til Hulda hitti lækninn sinn, hún leitaði svara og fór að "google-a".
„Ég var búin að "google-a" það að ég væri með annað krabbamein og að ég væri bara að fara að deyja.“
Á greiningarfundi hjá lækninum var henni tilkynnt að um brjóstakrabbamein væri að ræða. Hulda Halldóra fór í kjölfarið á kaffihús með eiginmanni sínum og hélt upp á það að hún væri ekki að fara að deyja.
Hún ætlaði sér að tækla þetta verkefni. „Ég var komin með verkefni í hendurnar, vissi hvernig það væri og ætlaði bara að fara að rústa því“ segir Hulda Halldóra.
Við tóku erfiðir tímar, uppskurður og undirbúningur fyrir frekari meðferðir. Lyfjabrunnur var settur upp á Þorláksmessu og byrjaði sjálf lyfjagjöfin 30.desember. Hulda fór í 6 lyfjagjafir og 18 geislameðferðir.
„Maður er að berjast fyrir lífi sínu, maður fer bara í eitthvað „mode“ og ætlar að gera það vel.“
Til þess að halda í sjálfstraustið og betri líðan þá klæddi stílistinn Hulda Halldóra sig upp fyrir hverja lyfjagjöf í kjóla, pallíettubuxur eða hvað hentaði þann daginn. Var þetta ein af hennar aðferðum til að viðhalda betri líðan og gera það besta úr þvi versta. Þó var hængur á því, þar sem sá fatnaður sem hún valdi í meðferðirnar geta skapað hugrenningartengsl og jafnvel skapað ógleði þegar hún klæðist þeim í dag, þrátt fyrir að meðferð sé lokið.
Hulda Halldóra fór fljótlega eftir greininguna í Ljósið sem hún segir ómetanlegan stuðning. Jafningjastuðningurinn hefur verið henni sérstaklega mikilvægur. Það að geta speglað sig í jafningjum sem eru að glíma við það sama og deilt reynslu er mjög mikilvægt.
Hulda Halldóra segir að Ljósinu hafði hún kynnst í gegnum starf sitt sem stílisti, en fyrir nokkrum árum stíliseraði hún einmitt auglýsingarherferð fyrir Ljósið.
Ég er svo þakklát fyrir Ljósið, það taka allir svo vel á móti þér, allir svo góðir og faglegir. Og bara starfsfólkið yndislegt. Allir einhvern veginn svo jákvæðir og bjart yfir þeim.
Kolféll fyrir leirnum í Ljósinu
Leirinn og leirmótunin í Ljósinu fangaði hug Huldu og er hún alveg kolfallin fyrir þessu skemmtilega handverki. Upplifunin er að leirinn gefi ró og aukið sjálfstraust. Það má segja að leirtímarnir í Ljósinu hafi verið hápunktur vikunnar þegar Hulda var í sínu ferli, en hún beið alltaf spennt eftir að komast í leirinn. Sleppti ekki úr tíma, hvort sem heilsan bauð uppá það eða ekki. Hulda hefur framleitt ýmsa fallega muni, bolla, stell og ýmislegt annað og hefur nú komið sé upp góðri aðstöðu heimafyrir þar sem hún getur haldið áfram núvitundinni og sköpunargleðinni sem leirinn bíður upp á.
Fókusinn breytist
Hulda tók meðvitaða ákvörðun um að vera opin með krabbameinsvegferð sína og hefur verið dugleg að deila henni á sínum miðlum. Það gaf henni mikið að fá góð viðbrögð, fallegar kveðjur og pepp frá sínu fólki, henni fannst það ómetanlegt sérstaklega þegar hún var sem veikust. Einnig finnst Huldu Halldóru mikilvægt að segja frá þannig að aðrir í sömu stöðu geti speglað sig í hennar vegferð.
Lífið breytist við krabbameinsgreiningu og það verður ekkert jafn mikilvægt og börnin manns og fjölskylda. Fókusinn breyttist hjá Huldu og leggur hún meiri áherslu á jafnvægi í lífi og starfi. Húmorinn og jákvæðnin er aldrei langt undan og segist hún hafa tekið ákvörðun og valið að vera jákvæð í gegnum ferlið.
Ég var komin með verkefni í hendurnar, vissi hvernig það væri og ætlaði bara að fara að rústa því
Líkamlega endurhæfingin
Líkamlega endurhæfingin í Ljósinu var Huldu mikilvæg, að fá aðstoð og geta verið í krabbameinsbúbblu hjá sérfræðingum sem þekkja sjúkdóminn var henni dýrmætt. Hreyfing var stór hluti af bataferlinu og reyndi hún að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi, hvort sem það voru nokkur skref eða kraftmikil æfing. Aldrei lét hún deigan síga.
Hún setti sér markmið að hlaupa 10km í Reykjavíkurmaraþoninu sem hún gerði ásamt Ljósasystrum sem er jafningjahópur Huldu í Ljósinu. Þessi magnaði hópur safnaði alls 4 milljónum fyrir Ljósið. Hún er rétt að byrja í hreyfingunni og stefnir á að komast í besta form lífs síns.
Í dag er Hulda Halldóra þakklát fyrir að hafa fengið krabbamein og læknanlegt mein. Ferðalagið hefur kennt henni margt og er hún krabbameinslaus í dag. Boltarnir hennar eru margir og verður spennandi að sjá hvaða ævintýri bíða hennar í framtíðinni, sem sannarlega er björt.